138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni og þetta mætti hugsanlega leysa í þessu prófkjöri mínu þannig að menn geti skilað tveimur seðlum. En hv. þingmaður er í rauninni að tala um það að menn verði kosnir til Alþingis án þess að bjóða sig fram. Ég er ekki viss um að fólk sé almennt tilbúið í það. Ég hugsa að ekki sé hægt að skylda menn til að fara inn á þing. Ef kjósandinn mundi vilja kjósa einhvern mann úti í þjóðfélaginu og hann bara langar ekki til að fara á þing. Það verður að vera eitthvert framboð, einhver þarf að lýsa því yfir að hann vilji fara í pólitík. Og um leið og komið er framboð, þá þarf sá sem í hlut á að auglýsa sig á einhvern hátt. Um leið og það byrjar þá er komin þessi blóðuga barátta sem hv. þingmaður talaði um. Ég sé ekki hvernig hægt er að komast hjá því, enda vil ég benda á að bæði Bónus og Krónan auglýsa grimmt. [Hlátur í þingsalnum.]