138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:03]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka mínum ágæta formanni í allsherjarnefnd, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrir mjög skilmerkilega og vel hugsaða og upplýsandi ræðu um þessi frumvörp.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður tók á sig krók til að benda á að vísir menn og fróðir einhvers staðar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri skynsamlegt að breyta kosningalögum þegar skemmri tími en ár væri fram að kosningum. Nú langar mig bara til að spyrja hreint út, einföld sál sem ég er, er hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir þeirrar skoðunar að þetta frumvarp eigi ekki erindi til að verða að lögum áður en gengið verður til sveitarstjórnarkosninga? Það vildi ég gjarnan vita.

Í hinn staðinn langaði mig til að hafna því sem mér fannst hv. þm. Steinunn Valdís ýja að, að sem sagt ef persónukjör er aðeins leyfilegt innan eins lista þá tryggi listi frá einum flokki samstöðu, hreinar línur í pólitík og svoleiðis, annars fari allt í hund og kött. Guð minn almáttugur, hvar hefur hv. þm. Steinunn Valdís verið það sem af er þessu þingi að hér hefur flokkur sko heill flokkur sprungið í frumeindir sínar. Daglega verðum við vitni að því (Forseti hringir.) að bæði meðlimir stjórnarflokkanna og hinna flokkanna eru upp á kant og rífast eins og hundar og kettir við félaga sína.