138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður deilum greinilega sömu lífsskoðun í þessum málum hvað það varðar að það sé fullkomið jafnrétti og vilji kjósenda skuli koma sem mest í ljós.

Til gamans skal þess getið hér að með kynjakvótum, sem gjarnan hafa verið innleiddir í prófkjör og annað undanfarin ár hjá ýmsum stjórnmálaflokkum, fléttulistar og hvað þetta heitir allt — þá langar mig til að benda á það sem gerðist í Framsóknarflokknum í prófkjörum fyrir síðustu kosningar. Þá var sett inn ákvæði um að hlutfallið skyldi vera 60:40 og ef annað kynið næði hærra hlutfalli skyldi verða riðlun á listunum. Það skipti engum togum að þetta varð til þess að færa þurfti tvær konur niður því að fimm konur hrepptu sæti 1–5 en vegna kynjakvótans voru þær hífðar niður og karlmenn teknir í staðinn.

Ég held að það sé hreinlega komið að því hjá okkur hér á Íslandi í þessari upplýstu umræðu — og við fylgjumst mjög vel með og erum mjög meðvituð um að jöfnuður skuli ríkja — að kjósandinn fái frjálst val um þetta án hafta og girðinga frá stjórnmálaflokkunum sjálfum. Þetta er raunverulega farið að vinna á móti því markmiði, þetta dæmi sem ég var að nefna, að hygla einu kyninu á kostnað hins þar sem vilji kjósenda fékk ekki að ganga inn í kosningarnar sjálfar, því að vissulega var þetta prófkjör haldið og þessar ágætu konur fengu sín sæti en þurftu síðan að víkja fyrir körlum — náttúrlega er venjulega leiðin sú að karlar hafa þurft að víkja fyrir konum. Það er m.a. út af því sem ég er hrifin af frumvarpinu, það er vilji kjósandans sem nær í gegn á kjördag.