138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins staldra við eitt atriði í ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Það er það sem hún sagði í upphafi um þá orðræðu sem átt hefði sér stað, að menn töluðu um það að með því að fara persónukjörsleiðina með einhverjum þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu væri verið að færa prófkjör fram á kjördag. Ég get gengist við því að ég hef áreiðanlega einhvern tíma í umræðum hér í þinginu eða nefnd notað slíkt orðalag. Það sem ég á við þegar ég nota það orðalag er kannski fyrst og fremst það að fram á kjördag, allt þar til kosningu lýkur, eru í rauninni tvenns konar slagsmál eða keppni í gangi, annars vegar keppni milli flokka um að fá sem flest atkvæði og hins vegar milli einstaklinga innan flokka um að fá sem flest atkvæði.

Vel kann að vera að mönnum finnist það gott mál, það geta verið rök með því og á móti. Hins vegar er óhjákvæmilegt að horfast í augu við það að það hefur veruleg áhrif því að það verður auðvitað þannig í slíku kerfi að frambjóðendur sem raunverulega hafa áhuga á því að taka sæti hvort sem er á þingi eða í sveitarstjórn munu keppa á eigin forsendum til þess að fá persónulega sem flest atkvæði og það getur leitt til þess að átök og illdeilur innan flokka verði meiri en ella. Það getur haft áhrif á kostnaðarhlið, eins og hv. þingmaður vék að, (Forseti hringir.) og það kann að hafa ýmis áhrif. Ég sakna þess að það skuli ekki rætt frekar í þessu samhengi því að (Forseti hringir.) að þar er um að ræða gríðarlega breytingu sem við verðum að horfast í augu við að komi til (Forseti hringir.) vegna þessara breytinga, nái þær fram að ganga.