138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið þátt í færri prófkjörum en hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég hef hins vegar ekki orðið vör við miklar illdeilur eða slagsmál en það er vissulega keppni. Ég vil gera þá kröfu til þess fólks sem vill setjast hvort heldur er á Alþingi eða í sveitarstjórnir að það átti sig á því að þegar komið er að því að það er saman á lista, sem vissulega má merkja við og einn verður á undan öðrum eins og gengur, vinni það saman. Hver og einn notar síðan sín sérkenni og sínar áherslur og ég sé ekki að þetta muni skapa hættu á blóðugum átökum eða bræðravígum.