138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara þessu bara játandi. Ég tel, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var að spyrja um, að ef við fengjum einhver sveitarfélög sem tilraunasveitarfélög í þetta verkefni þá væri bara eðlilegt og ég væri alveg samþykkur því að menn fengju bara að kjósa þvert á flokka í sveitarstjórnarkosningum. Síðan þarf maður nú aðeins að melta það með sér hvort menn færu með þetta inn í alþingiskosningar af því að — við erum reyndar að ræða þessi frumvörp bæði í einu og maður má passa sig á að fara ekki á milli — það er svo mikill munur á því að fara í sveitarstjórnarkosningar eða alþingiskosningar, sérstaklega úti á landsbyggðinni þar sem eru minni sveitarfélög. Þetta er allt öðruvísi hér í höfuðborginni, þar fara menn í prófkjör og fara alls konar leiðir í því og þó svo að hv. þingmaður hafi bent á að þau hafi bara haft 1 milljón og þessar fáu vikur og náð góðum árangri, þá er þetta ekki eins í sveitarstjórnarkosningum. Vandamálið er þar, og ég þekki þetta bara persónulega, að það er oft rosalega erfitt — ég kem nú úr tæplega 2.000 manna sveitarfélagi og er búinn að fara þar í gegnum fernar kosningar, og það er bara þannig alveg sama hvort það er Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin eða hver sem er að bjóða fram — vandamálið er að fá fólkið til að fara í framboð. Og það er þannig í mjög mörgum sveitarfélögum að þar er kannski samkrull af tveimur, þremur stjórnmálaflokkum í sameiginlegu framboði til sveitarstjórnarkosninga. Stundum er það þannig til þess að fella meiri hlutann og stundum er það þannig að fólk nær bara ekki að manna lista. Síðan eru það óháðir listar sem þar eru og oft er það þannig að ákveðinn flokkur er með framboð í samvinnu við óháða sem eru ekki skráðir í neina flokka, þannig að flóran er allt öðruvísi í sveitarstjórnarkosningunum. En aðalatriðið er þetta að við þurfum að fara varlega í þetta en ég svara því játandi að ég er algerlega tilbúinn til þess að menn gangi alla leið og fái að velja sína fulltrúa með eðlilegum hætti.