138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, þá hef ég áður sagt og sagði það reyndar í þessum samráðshópi ef ég man rétt sem var að störfum í vor og sagði það held ég líka hér í þinginu í sumar þegar þetta mál kom til umræðu, að ég teldi að það væri eðlilegra að ein kosningalög giltu fyrir öll sveitarfélög í landinu, það væri bara ein regla fyrir alla, það væri ekki undir einhverjum ákvörðunum einstakra sveitarstjórna eða sveitarstjórnarmanna í einstökum sveitarfélögum komið hvort farið yrði í tilraunaverkefni eða ekki. Ég held raunar að það væri alveg hægt að gera það, ég held að það sé tæknilega mögulegt og ég held að bara eins og við getum gert alls konar hluti þá getum við alveg gert það. Ég er hins vegar ekkert alveg viss um að það gefi okkur endilega rétta mynd af þessu, vegna þess að hvaða sveitarfélög verða það sem gera tilraunina? Eru það sveitarfélög þar sem sveitarstjórnarmenn sjálfir telja sig hugsanlega hafa einhverja persónulega hagsmuni af því að fara frekar þessa leið en einhverja aðra? Ég veit það ekki. Það alla vega býður heim hættunni á slíkum vangaveltum.

Ég er því þeirrar skoðunar að eins og við höfum ein sveitarstjórnarlög yfir allt sviðið, bæði yfir stór sveitarfélög og smá, þá eigum við að hafa sömu kosningalög fyrir öll sveitarfélög bæði stór og smá, en það gerist ekkert endilega neitt hræðilegt þó að gerð sé tilraun á einhverjum stöðum. Það má vel skoða þá leið, ég ætla ekkert að útiloka það fyrir fram. En ein lög fyrir landið er svona meginregla sem ég hef talið að væri æskilegt að fylgja.

Varðandi síðari möguleikann þá geri ég mér grein fyrir því að það getur komið til alþingiskosninga hvenær sem er. Eins og stjórnmálaástandið er á Íslandi getur það gerst frekar fyrr en seinna. Ég hins vegar held að við getum kannski ekki endilega tekið ákvarðanir í þessum málum út frá þeirri staðreynd (Forseti hringir.) þó að hún sé vissulega öllum ljós.