138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:46]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins vegna þess sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði varðandi tilurð þessa frumvarps þá er því til að svara að hér er um stjórnarfrumvarp að ræða sem hefur verið afgreitt úr báðum stjórnarflokkum og fengið efnislega umræðu þar. Og ég hygg, án þess að ég ætli sérstaklega að halda hér uppi vörnum fyrir fjarstadda félaga mína í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, þá hafa fulltrúar þaðan tekið þátt í umræðu hér, efnislegri umræðu um persónukjör, bæði í mars sl. og eins í sumar þegar það var á dagskrá. Ef ég man rétt hélt hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hér langa ræðu í mars þar sem hann reifaði sjónarmið varðandi persónukjör. En þegar rýnt er í ræðu hans og hún lesin þá sést að í meginatriðum talar hann fyrir málinu og ég hygg að flestallir aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs geri það líka. Hinu er hins vegar ekki að neita, eins og kemur fram í umsögn stjórnarflokksins sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, að það eru ýmsar vangaveltur sem þar eru hafðar uppi. Þar er velt upp ýmsum hlutum sem lúta m.a. að kynjakvóta, að áhrifum fjármagns á þetta kerfi o.s.frv. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að þessum sjónarmiðum sé velt upp, að þetta fari inn í umræðuna, en síðan legg ég áherslu á að málið er hér til umræðu vegna þess, hv. þingmaður, að það hefur nú þegar verið afgreitt úr stjórnarflokkum, bæði Samfylkingar og Vinstri grænna.