138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:51]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og segir í umsögninni sem hv. þingmaður vitnaði til, ef ég man rétt, ég er nú ekki með umsögnina hér fyrir framan mig, þá leggur stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áherslu á að áður en málið verði tækt til afgreiðslu þá verði það skoðað frekar, ekki til framlagningar, heldur til afgreiðslu.

Það er einmitt það sem við erum að gera hér, við erum að ræða málið efnislega, við erum ekki búin að afgreiða það, hv. þingmaður, það á eftir að fá þinglega meðferð í allsherjarnefnd, koma síðan aftur inn á þingfund og ég hygg að þessi umsögn sé einmitt fallin til þess að draga fram þær vangaveltur sem ég nefndi áðan og þau sjónarmið sem vissulega hafa heyrst, ekki bara frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, heldur líka frá þingmönnum annarra flokka, m.a. frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst í sjálfu sér ósköp eðlilegt að menn setji fram slíkar vangaveltur í svona umsögn og bendi á það að áður en málið sé tækt til afgreiðslu fái það vandaða málsmeðferð hér á þinginu. Það er akkúrat það sem við erum að gera hér. Þess vegna finnst mér fullkomlega eðlilegt að þrátt fyrir að þessi umsögn sé komin fram með þessum hætti, að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs afgreiði það formlega úr þingflokki sínum inn til Alþingis og eftir atvikum allsherjarnefndar, til þess að það fái þar þinglega meðferð, efnislega umfjöllun og komi síðan eftir atvikum til afgreiðslu hér þegar fram líða stundir.