138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að byrja á því að þakka fyrir hvað umræðan um þetta mál hefur verið vönduð. Hún hefur eiginlega bara verið handan flokkspólitíkurinnar þangað til núna rétt í lokin. En mér sýnist á öllu að það sé hreinlega að myndast þverpólitísk samstaða um kosningar þvert á flokka. Ég held að fátt mundi gleðja mig meira eins og staðan er í dag.

Frú forseti. Það var skýlaus krafa almennings að hér yrðu gerðar róttækar breytingar til að tryggja almenningi meiri áhrif til þátttöku í samfélagsmótun eftir hrunið mikla, þegar siðrofið og spillingin blasti við. Krafan um persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnlagaþing til að tryggja lýðræðisumbætur, var hávær. Ég fagna því þessu frumvarpi því það er skref í rétta átt. En því miður hefur hugmyndin um persónukjör þvert á flokka ekki fengið hljómgrunn meðal flokkanna fyrr en kannski hérna í kvöld. Ég vona að þetta endurspegli það sem er að gerast inni í flokkunum og ég vona að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, a.m.k. þeir sem hafa talað hæst um að þeir vilji lýðræðisumbætur, sýni það í verki.

Það er kannski eðlilegt og var eðlilegt — og í raun og veru hefur ræða mín kannski orðið úr takti við það sem ég hélt að væri einlæg skoðun flokkanna, að þeir vildu ekki persónukjör þvert á flokka. Ég lít því svo á að þessi ræða sé þá til þeirra sem eru ekki hérna, því það endurspeglast kannski í fjarveru þeirra að þeir hafi bara hreinlega engan áhuga á þessu máli, ég veit það ekki, en það er kannski eðlilegt að þetta hafi ekki fengið mikinn hljómgrunn, því sennilega mundi það breyta því hvernig fólk hugsar um pólitík. Það mun kannski hefja þjóð og þing upp úr flokkspólitískum skotgröfum sem hreinlega gengur ekki að við bjóðum hvert öðru upp á á slíkum örlagatímum sem við lifum á í dag.

Hér erum við annars vegar að fjalla um frumvarp um persónukjör til Alþingis og hins vegar að fjalla um persónukjör til sveitarstjórnarkosninga. Í þessu frumvarpi, því fyrrnefnda, höfum við væntanlega meiri tíma til að vinna að því að láta það vera í betra samhljómi við þær væntingar sem eru úti í samfélaginu. Það að geta valið það fólk sem manni hugnast best, þvert á flokka, gerir almenningi kleift að hafa meiri áhrif það á hverjir veljast inn á þing.

Það er brýnt að við þingmenn fjöllum um hvað það er sem er hugsanlega slæmt við það að bjóða almenningi upp á að kjósa þvert á flokka, hvað það er sem stendur í vegi fyrir því að aðlaga þetta frumvarp að þeirri einlægu ósk meginþorra þjóðarinnar að fá að kjósa þvert á flokka. Ég óska eftir góðum rökum fyrir því að hafa þetta svona, af hverju þetta frumvarp er jafnmáttlaust og raun ber vitni, sem sagt að fara bara hálfa leið, því það er eiginlega alveg makalaust að ekki sé hægt að bjóða betur en hálfa leið upp stigann í þessu frumvarpi og í raun og veru að bjóða okkur upp á eingöngu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing. Ég held reyndar að þjóðin haldi nú bara sitt eigið stjórnlagaþing ef þetta á að halda áfram svona.

Ég skora því á þingheim að fara alla leið með þetta frumvarp og umbylta því í nefnd, í allsherjarnefnd, á þann veg að þjóðinni verði boðið upp á að geta kosið þvert á flokka, það fólk sem hún treystir best til að vera fulltrúar sínir á löggjafarsamkundunni, óháð flokkum. Ég treysti því að þetta frumvarp og sérstaklega frumvarpið um persónukjör til Alþingis taki miklum breytingum í nefndinni.

Ég kalla eftir meiri samræðum um þetta mál. Því þó svo að hv. þm. Birgir Ármannsson hafi ekki orðið var við að þetta brenni á fólki þá hlýtur það bara að vera einhver annar heimur en ég lifi í, því það er svo oft sem fólk kemur til mín og vill ræða þessi mál og spyr af hverju ekki sé meira gert og hraðar farið í lýðræðisumbætur í þinginu. Við megum ekki gleyma því að lýðræðið var veikt, fólkið hafði engin verkfæri í sínum höndum til þess að breyta þeirri stjórnsýslu sem var yfir því í miðju hruninu og á eftir, eina vopnið sem fólkið hafði var að standa hérna fyrir utan þinghúsið og berja á bumbur. Það gekk meira að segja svo langt að það var fólk farið að meiðast, bæði mótmælendur og lögregla. Þess vegna held ég að mjög brýnt sé að við gefum fólki einhver verkfæri til þess að hafa áhrif á það í hvernig samfélagi það býr. Og ef aftur kemur upp sú ömurlega staða sem við vorum í í janúar, að fólk hafi þá einhver verkfæri til þess að losna við vanhæfa ríkisstjórn.