138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög tímabært mál sem lýtur að persónukjöri í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum. Þetta mál felur í sér mjög mikilvægar lýðræðisumbætur fyrir almenning og skiptir miklu. Mér finnst með ólíkindum hvernig menn hafa talað um þetta mál hér í kvöld. Ég er að vísu ekkert hissa á orðræðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, lýðræðisvitund þeirra er að mínu mati löngu þekkt og það er einfaldlega gefið mál að þeir sem hafa völd vilja halda völdum. Valdið er aldrei gefið, það er bara tekið, og umsagnir sveitarstjórnarmanna um þetta mál bera þess merki að þeir vilja ekki láta hrófla við því kerfi sem er þeirra völd.

Menn hafa verið að vísa til prófkjöra sem eru að fara að hefjast og prófkjörs á Seltjarnarnesi. Það er einfaldlega ein aðferð til þess að halda völdum, þ.e. að hafa prófkjör nægilega snemma þannig að almenningur í sveitarfélaginu sé ekki farinn að huga að því nærri strax að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Þarna er einfaldlega verið að snúa á lýðræðið og blekkja fólk og þetta er bara vont mál.

Ég átti sæti í þeim hópi sem vann að frumvarpinu og sá hópur fundaði mjög oft og mjög ítarlega var farið yfir öll mál varðandi persónukjör. Ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar að kjör þvert á lista sé í eðli sínu hið hreina og sanna persónukjör og hefði kosið að sú hefði orðið niðurstaðan. Ég sá hins vegar alveg frá fyrsta degi í þessari vinnu að fulltrúar hinna flokkanna í þessum starfshópi voru mjög hræddir við allar breytingar. Orðræðan byrjaði á því að þetta væri varasamt og hræðslan stafar náttúrlega af því að menn sjá fram á það að völdin sem þeir eru vanir, aðferðin við að halda þeim, breytist. Það er í sjálfu sér ekkert annað en mannlegt eðli en almenningur og lýðræðið í landinu á ekki að líða fyrir það.

Með frumvarpinu fá kjósendur meira val og þeir fá meira vald og það skiptir mjög miklu máli. Eins og segir, með leyfi forseta, á bls. 7 í athugasemdum við frumvarpið býður sú aðferð sem nú er valin, útfærslan á henni, upp á bestu mögulegu leið til að tryggja að sem flest atkvæði fái sem mest vægi, þannig að það er ekkert út á aðferðina sem slíka að setja. Val þvert á lista, jú, jú, hefði verið betra, en það kom greinilega fram í þessum starfshópi að frekar hefðu þau sennilega hoppað út um gluggann þarna á fjórðu hæðinni en samþykkja það, margir sem tilheyrðu hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum. Ég skil það líka mætavel því að með því er verið að höggva ansi stórt skarð í stjórnmálaflokkana sem við búum við og það flokkskerfi sem við búum við. Slík breyting á ekki að eiga sér stað nema að mjög vel ígrunduðu máli. Ég er að því leytinu til sammála hv. þm. Þráni Bertelssyni með það að stjórnmálaflokkar skipta mjög miklu máli í stjórnmálum. Þó að deila megi um hversu mikil völd þeir eigi að hafa sem flokkar hafa þeir ákveðið umboð fyrir skoðanir og slíkt skarð í stjórnmálaflokka sem val þvert á lista hefði verið þarf að mínu viti meiri ígrundun þó að ég sé algjörlega fylgjandi því.

Meginkosturinn við persónukjör sem hér er valið er að flokksaginn minnkar, tök flokkseigenda á þingmönnum minnka, vald peninga innan stjórnmálaflokka minnkar og þetta skiptir allt mjög miklu máli. Þeir umræddu þættir urðu m.a. til þess að hér voru við völd árum og jafnvel áratugum saman ríkisstjórnir sem almenningur hafði ekki nema takmarkaða aðkomu að og við enduðum hér í hádegishléi 20. janúar sl. með hundruð manna fyrir utan þinghúsið sem reyndu einfaldlega að skemma það.

Það er til mikils að vinna fyrir land og þjóð að það þurfi ekki að gerast aftur og þetta er einfaldlega skref í þá átt. Menn eru hræddir við breytingar svo skömmu fyrir kosningar, segja þeir, mikilvægar breytingar á kosningalöggjöf er talað um, veigamiklar breytingar. Þetta eru ekki veigamiklar breytingar. Þetta eru mikilvægar breytingar fyrir almenning og fyrir kjósendur en þetta eru ekki veigamiklar breytingar, þetta eru smávægilegar breytingar. Í staðinn fyrir að fá niðurraðaðan lista að tilskipun stjórnmálaflokks fá kjósendur valinn lista sem þeir geta sjálfir raðað á, það er ekki veigamikil breyting og ekki grundvallarbreyting en hún er mikilvæg fyrir kjósendur.

Þetta hefur verið eitt af baráttumálum Hreyfingarinnar þó að í þessu tilviki finnist okkur það kannski ganga fullskammt, en ég styð þetta mál engu að síður. Persónukjör ásamt auknum þjóðaratkvæðagreiðslum og nýrri stjórnarskrá fólksins sem samin er af fólkinu, um fólkið og fyrir fólkið en ekki af þingmönnum, um þingmenn og fyrir þingmenn er náttúrlega brýnasta málið. Fram undan er lýðræðisvika því að frumvarp Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur verður væntanlega tekið fyrir í þessari viku og von bráðar einnig frumvarp Hreyfingarinnar og fleiri um fjölgun sveitarstjórnarmanna, sem er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir lýðræði í landinu. Sú staðreynd að borgarfulltrúar í Reykjavík séu 15 í dag, jafnmargir og þeir voru í Reykjavík árið 1908, segir sína sögu um þann áhuga sem verið hefur á valddreifingu.

Hér er því verið að þoka mjög mikilvægum málum áleiðis. Þó að skrefin séu kannski minni og smærri en æskilegt væri eru þetta þó alla vega fyrstu skrefin í þessa átt. Við skulum ekki gleyma því að ekki hafa verið stigin nein skref í þessa átt í mjög langan tíma. Ég er sannfærður um það að að loknum sveitarstjórnarkosningunum í vor, þegar búið verður að kjósa með þessari persónukjörsaðferð, muni það renna upp fyrir fólki að það sé ekkert vandamál heldur að breyta frumvarpinu sem fyrir liggur um persónukjör til alþingiskosninga á þann veg að kosið verði þvert á lista í þeim alþingiskosningum, og þá er mikilvægum áfanga náð.

Ég fagna að mörgu leyti þeirri umfjöllun sem átt hefur sér stað hér í kvöld um þetta mál og vandlegri reifun hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur á því en málið verður tekið fyrir í allsherjarnefnd. Ég vona innilega að það fái skjótan og vandaðan framgang þannig að það nái að verða að lögum helst á þingi fyrir jólahlé. Það mun sýna ákveðinn vilja þingsins í þessa átt sem skiptir gríðarlega miklu máli. Vonandi er sá tími liðinn að Alþingi þráist við að veita almenningi í landinu meira vald. Vonandi er bráðum liðinn sá tími að Alþingi þráist við allar breytingartillögur að stjórnarskránni sem fram koma. Þetta hefur verið löng og torsótt barátta, sú barátta sem menn hafa háð hér fyrir auknu lýðræði á Íslandi, og hún hefur verið tafin að langmestu leyti alla tíð af einum stjórnmálaflokki, Sjálfstæðisflokknum, og það er einfaldlega löngu orðið tímabært að það breytist.

Ég lít því björtum augum fram á veginn og horfi björtum augum inn í allsherjarnefnd þar sem ég er orðinn þess heiðurs aðnjótandi að vera áheyrnarfulltrúi. Ég get þar fylgst með og tekið þátt í því mikilvæga máli sem aukið lýðræði á Íslandi er.