138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur hver flokkur sinn háttinn á með það hvernig þeir haga kosningabaráttu sinni. Ég mundi hafa áhyggjur af því ef það færi þannig að völd til kosningastjóra yrðu yfirþyrmandi og yfirgnæfandi í þessu öllu saman. Í því tilviki sem hv. þm. Þór Saari nefnir var einmitt ekki um að ræða persónukjör. Það var auðveldara að færa þetta vald til kosningastjórans og láta hann eða hana eftir atvikum vega og meta hverjir væru bestir til að fara af því að fyrir fram var búið að raða á listann. Ég er ekki viss um að — þó að ég hafi mikla trú á því að bæði góður og almennur samhljómur sé innan Hreyfingarinnar um flest mál — sá hópur hefði þolað það allt saman ef menn hefðu haft áhyggjur af því hverjir kæmust inn á þing; að það væri kosningastjórinn sem tæki ákvarðanir um það hvar menn kæmu fram dagana fyrir kosningar og hefði þar með umtalsverð áhrif á það hvaða möguleika menn hefðu til að ná kjöri á Alþingi. En það kann að vera að það sé mismunandi eftir flokkum.

Við lifum í mannheimi. Í mannheimum er það þannig að þó að menn hafi góðan og mikinn félagsþroska þá getur metnaður manna til hluta verið mikill. Það væri illt til þess að vita að við værum að breyta lögum á þann veg að við teldum okkur vera að búa til kerfi sem kallaði fram meira lýðræði ef það síðan endaði þannig að meira vald færðist til miðstýrðs flokksvalds, það væri ekki gott.

Hvað okkur íhaldsmennina varðar skal ég sannarlega viðurkenna að ég er íhaldsmaður þegar kemur að þessum hlutum. Ég vil fara varlega. Það er ekki það að menn greini á um það að vilja hafa sem mesta möguleikar fyrir almenna kjósendur til að hafa áhrif á gang mála í samfélaginu, um það erum við öll sammála. Stundum er það þannig, og ég held að það sé almennt í þessu, að menn verða að gefa sér góðan tíma til að skoða breytingar á jafnmikilvægum málum og hér er um að ræða. Menn eiga ekki að gera lítið úr því og flýta sér og alls ekki, frú forseti, að taka sénsa.