138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst er þar til að taka, hvað varðar afstöðu þess sem hér stendur, að sjálfsagt er að hafa í huga að hér talar stjórnarandstöðuþingmaður. Það er ekki vegna þeirra miklu valda sem stjórnarandstaðan færir mönnum að ég hef mínar áhyggjur af því hvernig þetta mál er sett upp. Það er miklu frekar hitt sjónarmiðið að ég vil að við vöndum okkur, ég vil ekki að við séum að gera tilraunir og ég vil að góður samhljómur sé á Alþingi um þær breytingar sem við gerum á þessum hlutum. Ég held að þetta allt saman skipti máli og ég held að hægt sé að ná fram mjög góðum samhljómi vegna þess að við erum öll sammála um lýðræðið, gildi þess og mikilvægi. Það er enginn einn flokkur í þinginu sem hefur einhvern einkarétt á því hugtaki eða hefur það eitthvað framar á stefnuskrá sinni en aðrir. Ég er þeirrar skoðunar að við séum öll einlægir lýðræðissinnar.

Það er heldur ekki af ótta við breytingar sem ég hef þessa skoðun, þvert á móti. Ég held að það sé margt í okkar kosningafyrirkomulagi sem kallar á breytingar og ég vísa til orða hv. þm. Birgis Ármannssonar sem lýsti einmitt áralöngum hugleiðingum sínum um þetta mál. Ég er einn af þeim sem hafa velt því mikið fyrir sér hvernig best er að standa að þessum málum og hef játað að ég hef haft margar skoðanir í því máli, einfaldlega vegna þess að málið er flókið. Það sem skiptir þess vegna máli fyrir okkur núna, t.d. í ljósi þess hvernig stjórnarflokkarnir eru klofnir í þessu máli, því miður, er að við séum ekki að flýta okkur. Auðvitað eigum við að horfa til þess að vera búnir að klára þetta mál á kjörtímabilinu þannig að næst þegar kemur til þingkosninga, sem samkvæmt stjórnarskrá eiga að verða eftir tæplega fjögur ár, séum við reiðubúin, ef við náum góðri samstöðu um þetta mál, að gera þær breytingar á kosningalöggjöfinni sem henta þykja enda hefur það margoft verið gert. Alþingi hefur margoft staðið fyrir breytingum á kosningalöggjöf, m.a. hvað varðar kjördæmaskipan.