138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:31]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf ánægju af því að hlusta á hv. þm. Illuga Gunnarsson, sem yfirleitt hugsar á frjóan máta og kemur mér oft á óvart með því sem hann segir. Það var nú reyndar ekki það sem hann sagði, hv. þingmaðurinn, sem kom mér á óvart að þessu sinni, heldur kom mér á óvart að ræðusnilldin var í lágmarki, en þeim mun meira heyrðist hvernig hv. þingmaður dró lappirnar í sambandi við þetta mál. Bæði hv. þm. Illugi Gunnarsson og hv. þm. Birgir Ármannsson hafa látið í ljósi miklar efasemdir og talað um að flýta sér hægt, fara að öllu með gát, sem er svona fínt mál yfir að draga lappirnar.

Ég skil vel þá inngrónu tilfinningu hjá sönnum íhaldsmanni sem gamall framsóknarmaður lýsti einna best, en hann sagði: „Framfarir eru aldrei til bóta og yfirleitt til hreinnar bölvunar.“ Þetta er svo sem ekkert verri lífsafstaða en hver önnur — ekkert frekar en hægri sinnaður kaupmaður sem áratugum saman hefur rekið verslun með góðum árangri og almennum er á móti því að auka vöruúrval hjá sér vegna þess að saltfiskur, Ora-baunir og kjötfars hafa selst alveg prýðilega fram til þessa.

Ég nenni ekki að lifa til eilífðar við saltfisk, Ora-baunir og kjötfars, lýðræðislega eða á einn eða annan máta. Ég vil framfarir og ég vil framfarir sem allra fyrst. (Forseti hringir.) Þær mega bíða, þær þola að bíða, en það er betra að fá þær strax.