138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þá skelfingu sem í því felst að hver dagur sé öðrum líkur vil ég benda hv. þingmanni, af því hann er kvikmyndagerðarmaður, á ágæta mynd sem heitir Groundhog Day. Þar upplifir aðalsöguhetjan þann hrylling að hver dagur er nákvæmlega eins og sá síðasti. En það sem var áhugavert við þá mynd, hv. þingmaður, var að aðalpersónan lærði af reynslunni, lærði að það sem honum fannst gefið lífinu, því lífi sem hann lifði, var um margt fánýtt og hann varð að betri manni vegna þess að hann þurfti að ganga í gegnum sama daginn aftur og aftur. Fyrir suma kann það því að vera ágætt að fá annað tækifæri til að læra. Meginboðskapur þeirrar myndar er að menn verða að læra; menn verða að læra af sögunni, menn verða að læra af eigin lífi.

Það sem við eigum að læra af því sem kom fyrir hér á Íslandi er m.a. það að við eigum að vanda okkur. Við eigum ekki að taka sénsa. Við eigum ekki að hlaupa til bara af því okkur finnst. Við eigum að yfirveguðu ráði, með vandvirkni að leiðarljósi, að byggja grunn samfélags okkar, hvort sem það snýr að stjórnarskránni eða að kosningalöggjöfinni, eða öllum þeim þáttum sem eru grunnstoðir samfélags okkar — allt þetta eigum við að gera af yfirvegun, en þó með það að leiðarljósi, sem hv. þingmaður og ég erum alveg örugglega sammála um, að stefna að auknu lýðræði, betra og mannlegra samfélagi. Ég tel einmitt að við náum því með lýðræði að vopni, öllum þessum þáttum, sem síðan skilar sér í betra efnahagslífi og almennt betri lífsgæðum fyrir fólkið í landinu.

Þetta hangir allt saman, lýðræðið og efnahagslífið og allir þessir þættir, og ekki er hægt að skilja þá í sundur þannig að vel sé. Allt þetta getum við gert ef við vöndum okkur, ef við tökum ekki sénsa, ef við hlaupum ekki til bara af því við erum óþolinmóð. (Gripið fram í.) Það er það sem skiptir máli.

Að lokum vil ég þakka, af því ég tel að ég sé síðastur ræðumanna hér, frú forseti, fyrir ágæta umræðu af því mér láðist það núna í lok ræðu minnar.