138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:40]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið og ég held ég drepi niður alla stemningu með því að fara að súmmera umræðuna upp. Ég ætla bara að þakka umræðuna um þessi tvö mál. Ég tel að hún hafi verið mjög þörf og ég tel að hún fleyti þessum málum áleiðis. Það eru nokkur atriði sem standa upp úr — ef menn eru hlynntir persónukjörinu á annað borð þá er það spurning hvort beita eigi þeirri aðferð sem kynnt er til sögunnar í þessum tveimur frumvörpum eða róttækari aðferð sem felst í því að unnt verði að kjósa þvert á lista en það hafa margir nefnt hér í dag og í kvöld.

Í annan stað vildi ég aðeins koma inn á gildistökuna. Bæði frumvörpin gera ráð fyrir því að hafa hin hefðbundnu gildistökuákvæði um að lögin taki þegar gildi. Það eru því nokkrir kostir í þessari stöðu. Sá fyrsti að bæði frumvörpin hljóti skjóta afgreiðslu, það þarf þá að vera nokkuð skjót afgreiðsla fyrir þau bæði svo að þau nái að taka gildi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Það er líka í stöðunni að annað verði afgreitt fljótt og hitt síðar. Hv. þm. Þór Saari kom inn á að þá gefist kostur til að skoða betur fyrirkomulagið fyrir kosningar til Alþingis og sníða þá agnúa af því fyrirkomulagi sem yrði ákveðið fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar — mér finnst það reyndar gefa í skyn að þingmenn séu hikandi í afstöðu sinni og gæti gefið það signal að menn væru ekki alveg vissir, en það má svo sem alltaf gera þetta með ákveðnum formerkjum. Það hefur líka verið bent á það í kvöld að sveitarstjórnarkosningar séu um margt ólíkar alþingiskosningum, sem gæti þá verið lóð á þá vogarskál að fara þá leið sem hv. þm. Þór Saari lagði til. Ef bæði málin yrðu afgreidd síðar kemur persónukjör fyrst til framkvæmda við næstu alþingiskosningar, hvenær sem þær verða.

Síðan er náttúrlega síðasti kosturinn að bæði dagi uppi en það held ég að sé versti kosturinn.