138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir þetta innlegg í umræðuna um atvinnumál. Ég held að hann þekki skoðun mína á þessum málum. Ég hef verið mjög opinn fyrir stóriðjuuppbyggingu víða um land og hef nefnt þar nokkur dæmi eins og Bakka. Ég hef líka kynnt mér gjörla það sem gert hefur verið á Reyðarfirði eftir uppbyggingu Fjarðaáls þar í héraði. Ég tel mjög eðlilegt að orkan á þessum svæðum sé nýtt heimamönnum í vil og það á við um fleiri svæði í þessu landi.

Ég hef t.d. kynnt mér starfsemina í Fjarðaáli og sé að þar er verið að auka mjög fjölbreytni starfa á þessu svæði sem er lykillinn að framsókn þessara svæða að mínu viti. Það mesta og besta sem þessi svæði þurfa á að halda er að auka fjölbreytni starfa og það hefur gerst og gengið eftir með þeim stóriðjuframkvæmdum sem þar hafa orðið þannig að þessar framkvæmdir hafa orðið til heilla fyrir þetta svæði.

Ég hef ekki kynnt mér í þaula hvað aðstoðarmaður fjármálaráðherra hefur látið frá sér fara um þetta efni en mín sýn á þetta mál er alveg skýr. Ég hef talað um það á Húsavík, á Reyðarfirði og við nokkra félaga mína suður með sjó að ég vil sjá sterk atvinnutækifæri á þessu sviði verða að veruleika og horfi þar sérstaklega til verðmæta þeirra starfa sem verða til við þessar framkvæmdir. Þau eru ærin. Fjölbreytnin er mikil og að mínu viti eru það sáraeinfaldir fordómar að útiloka eina atvinnugrein frá öðrum í þessari umræðu. Ég held að við eigum að horfa öðru fremur heildstætt á atvinnulífið í því uppbyggingarstarfi sem fram undan er en ekki að útiloka eitt öðru fremur. (Gripið fram í.) Ber t.d. að hafa þar í huga að álver menga klárlega ekki meira (Gripið fram í.) en t.d. ferðaþjónustan. (Gripið fram í.)