138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á því að heyra frá hv. formanni fjárlaganefndar um stöðu þeirra mála sem lúta að yfirfærslu fjárheimilda sem ríkisstofnanir hafa við hver áramót. Það kom fram í umræðum um skýrslu um jöfnuð í ríkisfjármálum í sumar að fyrirhugaðar væru breytingar á þessu og í umræðum og vinnu fjárlaganefndar á undanförnum vikum höfum við orðið vör við að forstöðumenn einstakra ríkisstofnana eru mjög óvissir um þá stöðu sem þarna er fram undan. Gerð var breyting í þessum efnum í fjárreiðulögum árið 1992 og allir eru sammála um að þær breytingar hafa reynst mjög vel. Og í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur um framkvæmd fjárlaga á þessu ári, ekki síst í ljósi skýrslu Ríkisendurskoðunar sem nýlega er komin út, er full ástæða til að ætla að „drastískar“ breytingar í þessum efnum geti leitt til aukinna útgjalda umfram heimildir fjárlaga. Það liggja fyrir upplýsingar um það. Forstöðumenn einstakra stofnana hafa hugsað sér gott til glóðarinnar og eyða því takmarkaða fé sem þeir hafa til ráðstöfunar á þessu ári til að forðast að lenda í þeim skerðingum sem fyrirhugaðar breytingar kalla á.

Því óska ég sérstaklega eftir því að hv. formaður fjárlaganefndar komi upp og skýri þingheimi frá því hver staða þessara mála er því að það ríður á miklu, ekki síst í ljósi þess að fram undan er umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Og jafnframt hljótum við þingmenn í fjárlaganefnd að þurfa að taka tillit til þeirra breytinga sem þarna eru fyrirhugaðar við gerð tillögu okkar að fjárlögum næsta árs.