138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er hárrétt sem komið hefur fram að þegar lagt var í endurskoðunina á fjárlögum fyrir árið 2009 var ákveðið að frysta allar inneignir á árinu 2008. Ástæðan fyrir því var sú að þar voru inni 20–30 milljarðar og menn urðu að skoða útgjaldahliðina í ár út frá greiðslugrunni. Hefðu menn ætlað að fara í niðurskurðinn vitandi það að þeir ættu svo og svo miklar inneignir hefði það skekkt samkeppni á milli stofnana varðandi þann niðurskurð.

Eftir stendur, sem kemur líka fram í fyrirspurninni, að það á eftir að vinna betur úr með hvaða hætti verður svo farið með þessar inneignir vegna þess að það er ekki hægt að frysta þær varanlega hjá öllum. Sú vinna er eftir og þarf að skoða það mál. Samhliða þessu hafa komið tillögur um hvernig fara eigi með fjárveitingar á milli ára. Þær hafa safnast upp, eins og ég segi, hjá sumum stofnunum, ekki endilega af neinum sérstökum ástæðum heldur hreinlega vegna þess að kannski hafa reiknilíkön hentað betur einhverjum ákveðnum stofnunum en öðrum. En auðvitað getur það líka verið vegna góðs rekstrar. Komið hafa tillögur um að þarna væri heimilt að fara með 4% af veltu á milli ára og inneign geti numið allt að 10% en ekki hefur verið tekin nein formleg ákvörðun um það. Þetta er tillaga sem liggur fyrir og við í fjárlaganefnd hljótum að fjalla um hana. Það er sem sagt rétt ábending að þarna eru hlutir sem ganga verður frá. Stofnanir þurfa að vita hvað þær mega geyma og hvernig þær mega fara með fjárheimildir og er hugmyndin að búa til einhverja reglu um það. Hvort þessi 4%-regla er sú rétta eða ekki verðum við að fá að meta í þinginu og ákveða hvernig framhaldið verður.

Varðandi 2008 ítreka ég að það verður auðvitað að skoða það sérstaklega hvað af þessum fjárheimildum færist á milli ára en það er skrýtið að sumar stofnanir láta eins og það hafi komið þeim á óvart. Kynnt var strax í upphafi sumars að ekki mætti nýta þessar heimildir þegar niðurskurður þessa árs var skoðaður.