138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir einlæg svör hér áðan. Það er hins vegar ljóst af svörum hans að það er andstaða við málið innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og sama hefur mátt lesa úr ummælum hv. þingmanns í fjölmiðlum um þetta mál. Þessi andstaða er, að því er virðist, ekki bara bundin við einstaka þingmenn heldur hefur formleg stjórn hreyfingarinnar tekið afstöðu sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en sem andstöðu við þetta frumvarp. Ég ætla að leyfa mér að lesa upphaf umsagnar stjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er ljúft og skylt að veita umsögn um ofangreint frumvarp og leggur hún til að því verði vísað inn í umræðu um stjórnlagaþing.“

Það er sem sagt ekki málsmeðferð á Alþingi sem stjórn VG leggur upp með heldur meðferð á stjórnlagaþingi. Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi um stjórnlagaþing sem lá fyrir 137. löggjafarþingi segir í 3. gr.:

„Stjórnlagaþing skal sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi þætti: Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.“

„Frumvarpið um persónukjör er ófullkomið og þarf mun betri umfjöllun áður en það er tilbúið til afgreiðslu.“

Síðan fylgja tvær blaðsíður með mjög ítarlegum efnislegum athugasemdum við meginþætti frumvarpsins. Það er ekki svo að stjórn VG sé bara eitthvert fólk úti í bæ, með fullri virðingu fyrir slíku fólki. Í þeirri stjórn sitja Steingrímur J. Sigfússon, formaður og hæstv. fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hæstv. menntamálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, hæstv. umhverfisráðherra, og fjölmargir aðrir (Forseti hringir.) lykilmenn í VG. (Gripið fram í.)