138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

persónukjör -- atvinnumál -- fjárheimildir ríkisstofnana.

[13:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er orðin nokkur lenska hér í þinginu að ríkisstjórnin sendi inn mál sem ekki er nokkur samstaða um innan ríkisstjórnarflokkanna. (Utanrrh.: Þau komast alltaf í gegn.) Það má svo sem halda því fram að það sé ekki hið versta sem getur gerst að menn deili hér innan þingsins en það eru þeir tímar nú í íslensku þjóðfélagi að það reynir mjög á að starfhæf ríkisstjórn sé í landinu.

Í þessu máli sem hér hefur verið nefnt, sem snýr að grundvallarlöggjöf í samfélagi okkar, hefur verið sett mál inn í þingið og ætlast til þess að við þingmenn verjum tíma okkar til þess að kynna okkur það og ræða hér í þingsal og í nefndum. Þegar síðan kemur í ljós að annar stjórnarflokkurinn leggst gegn því að málið fari þessa leið, að það fari yfir höfuð inn í þingið, hljóta menn auðvitað að reka upp stór augu.

Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að gera aðeins að umræðuefni ummæli aðstoðarmanns fjármálaráðherra hvað varðar stóriðjuframkvæmdir. Það er alveg furðulegt að heyra að menn hafi áhyggjur af því núna þegar þúsundir Íslendinga eru atvinnulausar, þegar ríkissjóð Íslands bráðvantar peninga, að þá hafi menn áhyggjur af því að það séu ruðningsáhrif vegna stóriðjunnar. Það er alveg furðuleg hugsun. Hverju er verið að ryðja í burtu með þessum hætti við þessar aðstæður? (Gripið fram í.) Það er samdráttur í hagkerfinu og verið er að draga saman í útgjöldum ríkissjóðs, sem mun kalla fram enn meiri samdrátt, og þá er svar ríkisstjórnarinnar og efnahagsráðstöfun að hækka skatta við þessar aðstæður.

Í gær minnti ég á hér í þingsalnum hvaða leiðir Danir fara við sínar aðstæður þar sem um er að ræða samdrátt, menn eru að draga saman ríkisútgjöldin. Þá forðast menn það eins og heitan eldinn að fara í skattahækkanir og fara frekar leiðir sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til sem snúa að séreignarsparnaði í lífeyrissjóðum. Land sem á þau tækifæri sem við Íslendingar eigum nú í kringum orkuiðnaðinn — að við ætlum ekki að nýta þau m.a. vegna þess að menn hafa þá skoðun að það ryðji frá öðru (Forseti hringir.) við aðstæður þar sem þúsundir Íslendinga eru atvinnulausar, er skoðun sem ég tel að sé hættuleg fyrir okkur öll sömul.