138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

persónukjör -- atvinnumál -- fjárheimildir ríkisstofnana.

[13:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég hef áhuga á að tjá mig aðeins í þessari umræðu varðandi persónukjörið. Það liggur fyrir að það er mjög jákvætt að persónukjör skuli vera rætt hér en ég verð hins vegar að gera athugasemdir við forgangsröðun Samfylkingarinnar, að mér sýnist, því að komið hefur fram að þetta mál virðist ekki njóta fulls stuðnings frá Vinstri grænum í þessari ríkisstjórn. Ég held að það sýni enn á ný hvað forgangsröðun annars stjórnarflokksins virðist vera kolröng.

Í sumar var megináherslan á að tala um ESB og að evran ætti að leysa allt. Nú var að koma fram í skýrslu AGS að sjóðurinn hafnar þeim hugmyndum að evran geti leyst einhver vandamál hér.

Í gær voru rædd tvö mál sem ég tel varða heimilin í landinu mjög mikið, en þau voru einmitt á eftir málinu um persónukjörið. Annars vegar var mál um að setja þak á verðtrygginguna og hins vegar var mál sem kallað hefur verið lyklafrumvarp, sem fjallar um að gefa fólki tækifæri til að skila lyklunum að heimilum sínum ef það getur ekki borgað reikningana sína. Þessi mál komust ekki á dagskrá, það var ekki tími til að ræða þessi mál í gær vegna þess að við þurftum að ræða um mál sem ég veit að hæstv. forsætisráðherra er mjög annt um. Þetta er mál sem Samfylkingin talar fyrir fyrst og fremst og við höfum séð stórgallaða verkstjórn aftur og aftur hjá Samfylkingunni, hvernig forgangsröðunin hefur verið kolröng og hvernig þessi forgangsröðun hefur skaðað heimilin í landinu. Ég segi það að ég hef miklar áhyggjur af því að við séum enn á ný í þinginu að fara að ræða mál sem á að þröngva í gegn vegna þess að það er eitthvert gæluverkefni hjá Samfylkingunni.

Ég vona svo sannarlega að þau mál sem ekki komust til umræðu í gær komist fljótt á dagskrá, frú forseti, en þetta sýnir (Forseti hringir.) hversu röng forgangsröðin er hjá Samfylkingunni.