138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það var í aðdraganda alþingiskosninga árið 2007 að Samfylkingin hélt mikla flugeldasýningu og boðaði að 1.200 ný störf yrðu auglýst á því kjörtímabili sem í vændum var þar sem fólk vítt og breitt um landið gæti sótt um störf án staðsetningar þannig að einstaklingur norður í landi gæti sótt um starf sem til að mynda hefði verið á höfuðborgarsvæðinu og unnið það í sinni heimabyggð. 1.200 störf voru stefnumál Samfylkingarinnar þá og ég spyr hæstv. forsætisráðherra, verkstjóra ríkisstjórnarinnar, um það hversu mörg störf án staðsetningar hafi verið auglýst af hálfu hins opinbera frá og með síðustu áramótum. Samfylkingin endurnýjaði þetta kosningaloforð sitt nú í kosningunum árið 2009 þannig að maður skyldi ætla að einhver stórkostleg afrek hafi verið unnin á þessum mánuðum þar sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur haft verkstjórn í forsætisráðuneytinu.

Reyndar höfum við rætt það á þingi en margir hafa efast um hvort hugur hafi fylgt máli, hvort Samfylkingin hafi ekki í raun og veru farið vítt og breitt um landið í atkvæðaleit. Við munum þegar starf forstöðumanns Vatnajökulsþjóðgarðs var auglýst, það var eitt fyrsta opinbera starf sem auglýst var eftir að ríkisstjórnin hafði kynnt þessar áætlanir sínar. Í stað þess að forstöðumaður Vatnajökulsþjóðgarðs yrði staðsettur í þjóðgarðinum sjálfum fékk sá ágæti einstaklingur atvinnu í Reykjavík. Okkur þótti mörgum þetta vera alger andhverfa þess sem Samfylkingin boðaði og talaði fyrir í þeirri kosningabaráttu sem þá var háð. Ég man að hv. þm. Bjarni Harðarson sem þá var þingmaður Framsóknarflokksins var mjög duglegur á Alþingi við að benda á þetta. Það er ágætt að hæstv. utanríkisráðherra skuli vera viðstaddur þessa umræðu því að hann lét mikið að sér kveða fyrir hönd Samfylkingarinnar í orðræðunni sem þá var og hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra sagði þann 4. febrúar árið 2008, fyrir einu og hálfu ári síðan, að í undirbúningi væri að skilgreina störf hjá 40 opinberum stofnunum sem störf án staðsetningar. Tveir fjármálaráðherrar hafi sett á laggirnar starfshóp til að undirbúa verkefnið og skoða bæði tæknileg atriði og kjarasamninga.

Nú ætla ég að viðurkenna það í lok fyrirspurnar minnar að ég hef ekki séð gríðarlega mörg störf auglýst sem störf án staðsetningar og það er kannski eðlilegt, í ljósi þess sem ég hef rakið hér, að (Forseti hringir.) forsætisráðherra er spurð hvers sé að vænta í þessu og hversu mörg störf hafi verið auglýst frá síðustu áramótum.