138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Upphaf umræðu um störf án staðsetningar má rekja til þingsályktunar Alþingis frá 17. mars 2007 þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að skilgreina öll störf á vegum ríkisins sem unnt er að vinna að mestu eða öllu leyti óháð staðsetningu, meðal annars í því skyni að jafna aðstöðu fólks til að sækja um og sinna margvíslegum störfum á vegum hins opinbera, að auka möguleika fólks á landsbyggðinni á að gegna störfum á vegum ríkisins, stækka hóp hæfra umsækjenda, auka skilvirkni og draga úr kostnaði við opinberan rekstur. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2007 var m.a. kveðið á um að skilgreina skuli þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðla að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Sérstakur starfshópur skipaður fulltrúum iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra vann tillögur að skilgreiningu hugtaksins störf án staðsetningar og tillögur starfshópsins lutu einkum að eftirtöldum atriðum: Að við allar ráðningar hjá ríkinu verði framvegis vegið og metið hvort vinna megi viðkomandi starf óháð staðsetningu í samræmi við yfirlýstan vilja ríkisstjórnarinnar og að stjórnendur þurfi á hverjum tíma að rökstyðja ef þeir telja að ekki sé hægt að skilgreina auglýst starf sem óháð staðsetningu. Að ráðist verði í þróunarverkefni þar sem þeir kostir og gallar sem fylgja starfinu verði kortlagðir með það í huga að sníða vankantana af, nýta sem best kostina og auka tiltrú á fyrirkomulaginu.

Að verkefninu komu iðnaðarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sjávar- og landbúnaðarráðuneytið og stofnanir á þeirra vegum. Iðnaðarráðuneytið réðst í þróunarverkefni haustið 2008 þar sem m.a. var rætt við nokkra aðila um reynslu þeirra af því að vera í starfi án staðsetningar. Verkefninu er nýlokið og verið er að ganga frá niðurstöðum þess. Forsætisráðuneytið óskaði í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns upplýsinga um þau störf án staðsetningar sem auglýst hafa verið af hálfu hins opinbera frá og með síðustu áramótum.

Í svörum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, sjávar- og landbúnaðarráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis kom fram að engin slík störf hafa verið auglýst af viðkomandi ráðuneytum eða stofnunum þess frá síðustu áramótum. Sama gildir um forsætisráðuneytið.

Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram að snemma á þessu ári auglýsti ráðuneytið lausar stöður þýðenda á landsbyggðinni og skyldi staðsetning þeirra ákveðin með tilliti til umsækjenda og skilyrði fyrir fjarvinnu. Ekki kom til ráðningar á grundvelli auglýsingarinnar þar sem áðurnefndum markmiðum um fjarvinnu var ekki náð. Ráðuneytið hefur ekki auglýst störf án staðsetningar að nýju. Hins vegar bendir ráðuneytið á að undanfarin ár hefur það byggt upp starfsstöð þýðingamiðstöðvar ráðuneytisins á Akureyri og Ísafirði þar sem starfa samtals sjö þýðendur. Þessar stöður hafa verið auglýstar og tekið fram að starfsstöðvarnar séu á áðurnefndum stöðum.

Í svari umhverfisráðuneytisins kemur fram að Umhverfisstofnun auglýsti fimm störf sérfræðinga lausar án staðsetningar. Þeir umsækjendur sem uppfylltu hæfniskröfur voru allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Þá auglýsti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið eftir og réð til sín vefstjóra sem staðsettur er í Vestmannaeyjum. Iðnaðarráðuneytið hefur auglýst eitt starf án staðsetningar og er sá starfsmaður staðsettur í Reykjavík.

Loks hefur Heilbrigðisstofnun Þingeyinga auglýst störf ráðgjafa fyrir reyksíma sem er um 70% staða án staðsetningar.

Ljóst er að óháð störf má vinna án ákveðinnar staðsetningar svo framarlega sem góð fjarskipti eru fyrir hendi. Ég nefni sem dæmi að þegar ég starfaði í félags- og tryggingamálaráðuneytinu var ráðinn þar sameiginlegur vefstjóri félags- og tryggingamálaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með starfsstöð í Vestmannaeyjum og hefur sú tilhögun reynst vel.

Ég vænti þess að niðurstöður þróunarverkefnisins sem nú er unnið að á vettvangi iðnaðarráðuneytisins muni verða ráðuneytum og opinberum stofnunum leiðbeinandi þegar skilgreina skal störf án staðsetningar. Það er eindreginn vilji stjórnvalda að sem flest störf standi fólki til boða, ekki síst fólki sem búsett er á landsbyggðinni. Forsætisráðuneytið mun í samræmi við það leggja áherslu á það við önnur ráðuneyti að ávallt verði vakin athygli á því í auglýsingum þegar slíkt á við og um er að ræða verkefni sem hægt er að vinna hvar sem er á landinu.