138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

störf án staðsetningar.

34. mál
[14:18]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé ansi miklum fullyrðingum haldið fram, að ekkert hafi verið gert í þessum málum. Ég held að menn þurfi að fara yfir stöðuna, það hefur ýmislegt verið gert í gegnum ýmsar áætlanir á umliðnum missirum, Norðvesturáætlun, Norðausturáætlun, Vestfjarðaáætlun. Þar hafa verið aukin störf, en það er alveg ljóst að það þarf að gera betur í auglýsingum. Það er það sem ég sagði að þyrfti að hnykkja á, að í auglýsingum yrði þessa ávallt getið ef um var að ræða störf sem væri hægt að vinna hvar sem væri á landinu. Það er það sem ég sagði að yrði gert í framhaldi af þessari fyrirspurn, það verður hnykkt á því við ráðuneytin að það verði tekið fram þegar störf eru auglýst.

Ég held að full ástæða sé alveg líka til þess að vekja athygli á því enn frekar en utanríkisráðherra gerði hér áðan að atvinnuleysi um þessar mundir er miklu meira á höfuðborgarsvæðinu en úti á landsbyggðinni. Á það verða menn líka að horfa, til að mynda langtímaatvinnuleysi. Eins og við horfum á kreppuna núna kemur hún miklu harðar niður á suðvesturhorninu en úti á landsbyggðinni þannig að menn verða að hafa alveg heildarmyndina af þessu.

Eins og ég sagði vænti ég líka mikils af því verkefni sem var unnið á vegum þriggja ráðuneyta í tíð fyrri ríkisstjórna, það var samgönguráðuneyti ef ég man rétt, sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytin, sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra kom hérna inn á. Það er verið að vinna með þær niðurstöður sem þar komu fram, niðurstöður þróunarverkefnis sem á að vera leiðbeinandi og skilgreina þessi störf án staðsetningar. Ég vænti mikils af því.

Ég get alveg tekið undir að kannski hefur orðið misbrestur á því að ráðuneytin haldi sig við það að auglýsa þau störf sem hægt er að vinna óháð staðsetningu og ég vona að úr því verði bætt í framhaldi af þessari fyrirspurn.