138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

skipun nefndar um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins.

96. mál
[14:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þegar lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, voru samþykkt þann 29. maí 2008 kom fram í ákvæði til bráðabirgða að við gildistöku laganna skyldi forsætisráðherra skipa nefnd til að fjalla um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, svokallað auðlindagjald. Skyldi nefndin fjalla um leigugjald, leigutíma, endurnýjun leigusamninga og önnur atriði er lytu að réttindum og skyldum aðila. Þá átti nefndin að meta hvaða aðgerða væri þörf til að tryggja í senn sjálfbæra og hagkvæma nýtingu auðlindanna. Nefndin átti einnig að huga að því með hvaða hætti yrði valið á milli þeirra sem hefðu áhuga á að nýta auðlindirnar og átti nefndin að skila tillögum sínum fyrir 1. júní 2009. Síðast þegar ég vissi var ekki einu sinni búið að skipa í þessa nefnd og þá er nú ekki niðurstaðna að vænta þar sem nefnd hefur ekki verið skipuð og ekki komið saman.

Enn á ný hefur ríkisstjórnin gengið gegn settum lögum hér á Alþingi. Ríkisstjórnin kom með í drögum þeim sem eiga að verða að fjárlögum fyrir jól bara sisona tillögu um að leggja á órökstuddan auðlindaskatt upp á 16 milljarða. Ég minni á að tilgangur þessara laga var að setja reglur um það hvort og hvernig ætti að leggja auðlindagjald á þær auðlindir sem verið er að nota, hver ætti þá að borga þann skatt og hver ætti að taka við honum, sveitarfélögin eða ríkið. Hér ríkir fullkomin óvissa um þetta því að þessi nefnd hefur ekki komið saman og ekki er búið að framfylgja þessu ákvæði samkvæmt lögunum.

Það er engum vafa undirorpið að skynsamleg nýting orkuauðlindanna hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland og hefur Framsóknarflokkurinn svo sem ekki hafnað því að hér verði teknir upp auðlindaskattar, en þá þarf að ríkja mikil sátt og samkomulag um hvernig eigi að leggja hann á og þýðir ekki að koma inn með hann eins og af himnum ofan eins og nú hefur verið gert.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra í framhaldi af þessu: Hvað líður skipun þessarar nefndar sem fjalla átti um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, samanber ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 58/2008? Samkvæmt ákvæðinu átti nefndin að skila tillögum sínum, eins og fram hefur komið, fyrir 1. júní 2009.