138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

skipun nefndar um fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins.

96. mál
[14:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Svo virðist sem ég hafi haft rangar upplýsingar undir höndum og ber mér þá að biðjast afsökunar á því þar sem nefndin hefur verið skipuð, og var hún skipuð samkvæmt upplýsingum frá hæstv. forsætisráðherra 7. janúar 2009. Hér er greinilega misskilningur á ferðinni og ég hef fengið rangar upplýsingar. Það er ánægjulegt að nefndin hafi komið saman 14 sinnum og að unnið sé í þessum málum því að það kemur mörgum á óvart að í fjárlagafrumvarpi skuli vera komið fram með auðlindaskatta þar sem þessi nefnd hefur ekki skilað tillögum sínum.

Vil ég þá í framhaldinu spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé rétt að bíða með þá auðlindaskatta sem nú liggja fyrir fram á næsta ár þar til nefndin hefur lokið störfum. Hún átti að ljúka störfum 1. júní 2009, á þessu ári, en virðist hafa fengið svigrúm hjá hæstv. forsætisráðherra til að ljúka störfum því að forsætisráðuneytið hefur með störf þessarar nefndar að gera. Er ekki rétt að leyfa nefndinni að klára þessi mál í friði og meta þetta á sínum eigin faglegu forsendum? Eins og fram kemur er í nefndinni greinilega úrvalsfólk sem hefur mikla þekkingu til þess að taka á þessum málum. Er ekki hæstv. ríkisstjórn að fara fram úr sér með því að leggja til að nú verði lagðir á auðlindaskattar fyrir árið 2010 þar sem lítil heimild er fyrir því nokkurs staðar í lögum, gæti orðið fordæmisgefandi til framtíðar þegar á að leggja á auðlindaskatt og auðlindagjöld? Er ekki rétt að draga til baka auðlindagjald það sem nú er gert ráð fyrir og fresta þeirri skattlagningu í a.m.k. eitt ár með þessum rökum þannig að þessi nefnd hafi starfsfrið og gangi óbundin til þeirrar niðurstöðu sem hún kemur til með að komast að?