138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

aðild að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku og Mexíkó.

50. mál
[14:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að ræða við hæstv. utanríkisráðherra um mögulega aðild eða aukaaðild að fríverslunarbandalagi Norður-Ameríku og Mexíkós. Um langt árabil hefur hryggjarstykkið í utanríkisþjónustu og stefnu okkar Íslendinga verið það að auka viðskipti við sem flestar þjóðir, ná fríverslunarsamningum eða viðskiptasamningum eins og við höfum t.d. gert við Færeyinga í sambandi við Höyvíkursamninginn og annan við Kanada sem tók gildi hér fyrr í sumar. Einnig má nefna fjölmarga aðra samninga. Í raun má segja að EES-samningurinn sé útvíkkaður viðskiptasamningur og fríverslunarsamningur sem hefur gert okkur kleift að vera í viðskiptum við fjölmargar þjóðir um langt árabil. NAFTA, fríverslunarsamningur Norður-Ameríku, var upphaflega samningur milli Kanada og Bandaríkjanna sem Mexíkó kom inn í á árinu 1994, ef ég hef kynnt mér rétt. Ástæðan fyrir því að menn voru að þessu á þessum tíma hefur mér sýnst sú að á þeim tíma var verið að byggja upp viðskiptablokkir um allan heim og er Maastricht-samningur Evrópusambandsins frá 1992 ein birtingarmynd þess. Á þessum tímapunkti bjuggu menn sér til viðskiptablokkir sem þeir lokuðu sig inni í og síðan átti hver blokkin samskipti við aðra og eru fjölmörg viðskiptastríð þar sem viðskiptahindranir hafa komið í veg fyrir eðlileg viðskipti frá þessum tíma og ekki öll leyst enn.

Því má svo sem spyrja þar sem við höfum gert þennan samning í gegnum EFTA-ríkin í gegnum fríverslunarsamninginn við Kanada hvort við höfum haldið áfram að dýpka þann samning. Hvers virði er sá samningur okkur? Í því sambandi vitna ég til fréttar sem birtist á vef utanríkisráðuneytisins 30. apríl sl. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Telja verður að samningurinn sé mikilvægur fyrir Ísland sem og önnur EFTA-ríki. Í því sambandi má nefna að um er að ræða fyrsta fríverslunarsamning sem Kanada gerir við ríki í Evrópu, en þess ber þó að geta að ESB og Kanada fyrirhuga að hefja fríverslunarviðræður á næstu mánuðum.“ Spurningin er þá sú hvort þessi samningur gefi okkur eitthvað aukalega.

Því spyr ég ráðherrann þeirra spurninga sem voru lagðar fyrir hann. Erum við þá ekki að setja öll eggin í eina körfu, þ.e. ESB-körfuna? Það hefur komið fram í málflutningi margra stjórnarþingmanna og samflokksmanna utanríkisráðherra að ekki sé gáfulegt að setja öll álver, alla stóriðjuna, í eina körfu og þá velti ég fyrir mér hvort við höfum ekkert plan B. Ef eitt ríki af 27 í Evrópu vill okkur ekki, (Forseti hringir.) höfum við þá ekki undirbúið það hvort við getum átt viðskipti við önnur ríki í framhaldinu?