138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gæsla hagsmuna Íslands í Norðurhöfum.

51. mál
[14:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um gæslu hagsmuna Íslands í Norðurhöfum. Breytt veðurfar á síðustu árum og áratugum veldur því að á næstu árum og áratugum mun landfræðileg lega Íslands gera landið jafnmikilvægt og á kaldastríðsárunum, ef ekki mikilvægara, hvort sem okkur líkar sú staðreynd betur eða verr.

Siglingar í norðvestur, fyrir vestan Grænland, og eins í norðaustur, fyrir norðan og vestan Noreg, eru nú að opnast í fyrsta sinn í þekktri mannkynssögu, þ.e. báðar þessar siglingaleiðir. Síðla sumars og hausts hafa skip, að vísu ísbrjótar, getað siglt frá Kyrrahafi til Atlantshafs í gegnum þetta og sparað sér þær leiðir sem þekktar eru í gegnum Panama og Súes. Þá hafa siglingar skemmtiferðaskipa meðfram austurströnd Grænlands aukist stórkostlega, eins og við höfum reyndar séð með viðkomu hér á Íslandi. Þar hafa auðvitað vaxið ýmsir möguleikar en einnig hefur komið upp ýmis áhætta sem við þurfum að verjast í framtíðinni. Þetta þýðir reyndar að hafið hér fyrir norðan og Norður-Íshafið gætu orðið skipafær allt árið innan fárra áratuga.

Á næstu árum eða áratugum munu opnast fleiri möguleikar á að nýta auðlindir hafsins og eins sjávarbotnsins en við nýtum í dag og margir óþekktir möguleikar eru þar fólgnir. Rannsóknir benda t.d. til þess að fjórðung ónýttra olíulinda jarðar sé að finna á þessu landgrunni og það eru ýmsir málmar, jarðgas og ýmislegt annað sem við þekkjum kannski ekki í dag sem við þurfum hugsanlega að passa upp á. Siglingaleiðirnar gera það að verkum að hér munu sigla skip með olíufarma, flutningaskip og skemmtiferðaskip í stórum stíl. Því velti ég fyrir mér hvernig við vinnum að þessu máli í dag.

Hér hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur um að verja hagsmuni okkar. Hér hafa verið haldnar ráðstefnur, svokölluð „Ísinn brotinn“ um það hvernig við verðum að vera undirbúin þegar Norður-Íshafsleiðin opnast. Einnig má minna hér á ávarp fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þar sem hún fjallaði m.a. um ýmsa möguleika. Ef ég má vitna í ræðu hennar segir hún einfaldlega að við „Íslendingar leggjum höfuðáherslu á að þau ríki, sem hagsmuni hafa af opnun siglingaleiða um Norður-Íshafið og auðlindanýtingu þar í framtíðinni, eigi með sér gott og náið samstarf“ og einnig að Ísland geri „tilkall til víðáttumikilla landgrunnssvæða“. (Forseti hringir.) Því langar mig að vita hvernig háttar hagsmunagæslu ráðuneytisins, núverandi hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) á þessum málum og hvert mat hans er á mikilvægi (Forseti hringir.) hagsmuna Íslands.