138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

undirbúningur aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

85. mál
[15:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að undirbúningnum líður vel og hann er í besta atlæti hjá utanríkisráðherra sem fer með þetta mál.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir það hversu árvökull hann er í varðstöðu sinni gagnvart ferlinu í ljósi þess að hann greiddi atkvæði gegn því og gegn því meirihlutaáliti sem er sú biblía sem ég sem utanríkisráðherra fylgi í þessum málum.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að á þessum málum hefur aðeins hægt en það var ekki í andstöðu við stjórnmálaflokkana á þingi. Ég sagði það alveg skýrt í fjölmiðlum og taldi að nokkuð góður skilningur hefði komið fram á því í samtölum við forustumenn í ýmsum stjórnmálaflokkum að það væri rétt að á meðan hitinn væri að gusast úr mönnum vegna Icesave færu menn sér aðeins hægar, t.d. varðandi skipun samninganefndarinnar.

Hins vegar er það svo að ferlið sem hv. þingmaður talar um byggist að öllu leyti á þeirri daglegu biblíu minni sem ég nefndi hér áðan, meirihlutaáliti utanríkismálanefndar, og það gerir ráð fyrir því að ferlið sé í eftirfarandi þrepum: Fyrst sendir Evrópusambandið spurningarnar eins og hv. þingmaður hefur drepið á og síðan semja Íslendingar svörin og senda ESB. Svörin hafa verið send. Það má gera ráð fyrir því, eins og kemur fram í meirihlutaálitinu, að hér komi einhverjar viðbótarspurningar. Því ferli mun ljúka væntanlega upp úr miðjum nóvember. Við höfum síðustu dagsetningu til að ljúka öllu okkar verki hvað þetta varðar upp úr miðjum nóvember. Þá hefst samkvæmt þessu ferli rýning löggjafar sambandsins við löggjöf Íslands. Þegar því er lokið skapast forsendur til þess að móta samningsafstöðu á einstökum samningssviðum og þá er það hlutverk einstakra samningahópa, samninganefndar og aðalsamningamanns að móta afstöðu Íslands að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og að teknu tilliti til allra þeirra sjónarmiða sem koma fram í téðu meirihlutaáliti. Samningsafstaða á einstökum sviðum er svo samþykkt af ríkisstjórn. Allt þetta getur hv. þingmaður lesið um í sínu ágæta eintaki af meirihlutaálitinu.

Hv. þingmaður spyr síðan hvað líði skipun samninganefndar. Það er búið að skipa hana. Eins og fram hefur komið er formaður Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, varaformenn eru tveir, Björg Thorarensen, deildarforseti lagadeildar HÍ, og Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri. Aðrir fulltrúar í samninganefndinni eru Gréta Gunnarsdóttir, Högni S. Kristjánsson, Kolfinna Jóhannesdóttir, Martin Eyjólfsson, Sturla Sigurjónsson, Þorsteinn Pálsson, lögfræðingur í Reykjavík, Anna Jóhannsdóttir, Bryndís Kjartansdóttir, Kolbeinn Árnason, sömuleiðis lögfræðingur í Reykjavík, María Erla Marelsdóttir, Maríanna Jónasdóttir, Már Guðmundsson, seðlabankastjóri í Reykjavík, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir prófessor og Sigurgeir Þorgeirsson.

Nefndin hefur sem sagt verið skipuð, verið kynnt utanríkismálanefnd og ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að leggja í þennan leiðangur. Ég hef sagt að ég vonaðist til þess að það væri mögulegt að við kæmumst í gegnum leiðtogafund Evrópusambandsins núna í desember en ég hef jafnframt sagt að það er annaðhvort desember eða mars, það eru í öðrum hvorum þessara tveggja mánaða sem ég held að sú ákvörðun verði tekin.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hans á þessu máli. Mér sýnist að hann sé mér sammála um að það sé gott fyrir hagsmuni Íslendinga að málið gangi hratt og vel. Batnandi manni er best að lifa og mér sýnist sem þessum hv. þingmanni vindi mjög ötullega fram á sínum pólitíska þroskaferli.