138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

undirbúningur aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

85. mál
[15:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hlý orð í minn garð en verð þó að hryggja hann með því að afstaða mín er óbreytt. Hins vegar er auðvitað ljóst að þegar ákvörðun hefur verið tekin á Alþingi, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, um aðildarviðræður við Evrópusambandið skiptir miklu máli hvernig haldið er á þeim málum.

Mér fannst ræða hæstv. utanríkisráðherra gefa til kynna að ég hefði í meginatriðum rétt fyrir mér um það að við værum núna á því stigi, þremur og hálfum mánuði eftir að aðildarumsókn var samþykkt hér á þingi, að einu aðgerðirnar af hálfu stjórnvalda væru þær að svara spurningalistum Evrópusambandsins. Það hefur ekki farið neinum sögum af því að Ísland hafi sent Evrópusambandinu spurningalista.

Hins vegar verð ég að segja að ég átta mig ekki á því og vona að hæstv. utanríkisráðherra geti skýrt það fyrir mér hér á eftir af hverju það er eitthvað eðlislægt eða efnislegt sjónarmið að bíða með mótun samningsmarkmiða þangað til spurningalistunum hefur verið svarað. Eftir því sem ég hef skilið best varða þessir spurningalistar fyrst og fremst stöðuna á löggjöf á Íslandi. Evrópusambandið er að afla upplýsinga um löggjöf hér á landi á ýmsum sviðum, og ég sé ekki að það ætti með nokkru móti að tefja mótun samningsmarkmiða. Auðvitað vitum við að í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar komu fram ákveðin meginviðmið í því sambandi en hins vegar verður að geta þess að í því meirihlutaáliti eru margar spurningar skildar eftir í lausu lofti með því að segja „huga þarf að“ eða „betur þarf að skoða“ eða „nauðsynlegt er að fara vel yfir“ o.s.frv. Afstaða er ekki tekin í mörgum veigamiklum málum og það er það sem ég kalla eftir að íslensk stjórnvöld geri, (Forseti hringir.) að þau móti sér skýr samningsmarkmið sem Ísland fer með inn í þessar aðildarviðræður (Forseti hringir.) og eru þá til þess fallin að standa vörð um (Forseti hringir.) hagsmuni Íslands. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu fyrir okkur hlýtur að (Forseti hringir.) mótast að einhverju leyti af samningsmarkmiðunum, ekki bara af því að uppfylla kröfur Evrópusambandsins.