138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

málefni Sementsverksmiðjunnar.

30. mál
[15:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið frá því greint að Sementsverksmiðjan á Akranesi glími við erfitt rekstrarumhverfi og þess vegna vakti það mikla athygli og jákvæða athygli þegar það gerðist að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum þriðjudaginn 25. ágúst að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að kanna þessi mál og skila um það áliti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók að sér að vera eins konar fréttafulltrúi þessa máls og greindi frá málinu með eftirfarandi hætti, virðulegi forseti:

„Ég tók málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi upp í ríkisstjórn í morgun. Mikilvægt er að allt sé gert sem mögulegt er til að verja stöðu og framtíð íslenskrar sementsframleiðslu. […] Það ríkja nú neyðarlög á sviði fjármála- og viðskiptalífs landsins. Í gildi eru lög um gjaldeyrishöft og barist er fyrir hverju starfi sem skilar verðmætum í þjóðarbúið og sparar erlendan gjaldeyri. Það skýtur því skökku við að opinberir aðilar skulu áfram kaupa innflutt sement til sinna framkvæmda á sama tíma og barist er fyrir lífi og framtíð íslenskar sementsframleiðslu.“

Hæstv. ráðherra segir jafnframt að stjórn Verkalýðsfélags Akraness hafi ályktað og hvatt ríkisstjórnina til að standa vörð um Sementsverksmiðjuna og sjá til þess að fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins styddu íslenska framleiðslu og notuðu íslenskt sement.

Þegar tveimur ráðherrum í ríkisstjórn er falið að fara yfir málefni tiltekins fyrirtækis með þessum hætti eru bundnar við það miklar vonir og væntingar sem eðlilegt er og því verður að gera ráð fyrir að þessi nefnd tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi farið yfir þessi mál og hafi markað einhverja stefnu um það hvernig bregðast beri við þeim vanda sem við er að glíma. Forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi hafa bent á að þeir standi í ósanngjarnri samkeppni við annan aðila. Samkeppnisaðilinn, sem er danskt fyrirtæki sem flytur hingað inn sement, verðleggur sitt sement þannig að mati forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar að greinilega sé um stöðugt undirboð að ræða. Þeir vekja athygli á því að danskt sement sé helmingi ódýrara hér en það er í Danmörku sem sé vísbending um að um sé að ræða einhvers konar undirboð.

Mér vitanlega hafa ekki komið fram með einhverjum opinberum hætti viðbrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli að öðru leyti en því að í fjárlagafrumvarpinu er boðuð sérstök skattheimta sem mun augljóslega leggjast mjög þungt á Sementsverksmiðjuna. Á fundi sem boðað var til af bæjarstjórn Akraness og verkalýðsfélaginu kom það t.d. fram hjá forstjóra Sementsverksmiðjunnar að áformaður orkuskattur, gæti, miðað við gefnar forsendur, numið 20 millj. kr. í aukaútgjöld fyrir verksmiðjuna. Og kolefnisskatturinn, sem einnig er áformað að leggja á, mundi, miðað við þær hugmyndir sem hæstv. fjármálaráðherra reifaði í greinargerð í sumar, þýða 140 millj. kr. aukaskatt á Sementsverksmiðjuna, 160 millj. alls sem eru (Forseti hringir.) 10% af útgjöldum Sementsverksmiðjunnar.

Þetta er það eina sem við höfum heyrt um þessi mál en ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra upplýsi (Forseti hringir.) í svari við þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt fram með hvaða hætti verði brugðist við vanda verksmiðjunnar.