138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

málefni Sementsverksmiðjunnar.

30. mál
[15:15]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að taka fram, þar sem hér hefur verið ákveðið að ræða málefni eins einstaks fyrirtækis sérstaklega á Alþingi, að Sementsverksmiðjan er einkafyrirtæki og eru eigendur þess bæði innlendir og erlendir, norskir og íslenskir, þannig að það liggi alveg klárt fyrir. Auðvitað er rekstrarumhverfi á Íslandi erfitt mjög víða í dag, hjá mörgum fyrirtækjum, og við eigum að horfa til þess að grípa til almennra aðgerða.

Í framhaldi af heimsókn okkar, iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra, í Sementsverksmiðjuna — og ekki vorum við í neinni sérstakri nefnd heldur óskuðum við eftir því að skoða þetta mál eða að við kynntum það út frá okkar hliðum þar sem málefni hennar geta komið inn á borð okkar beggja. Við fórum þangað í heimsókn einfaldlega vegna þess að okkur var boðið eins og gerist svo oft, við förum gjarnan í heimsóknir til fyrirtækja. Í kjölfar þess óskaði iðnaðarráðuneytið eftir upplýsingum bæði frá Sementsverksmiðjunni og frá samkeppnisaðilanum sem er Aalborg Portland um markaðshlutdeild og þróun sementsmarkaðar í heild á undanförnum árum. Þá kom í ljós að sveiflur á byggingarmarkaði í heild voru mjög afgerandi þáttur í hinum hraða vexti frá árinu 2004, eftir að fyrirtækið var einkavætt, til 2007. Var vaxandi eftirspurn mætt með innflutningi á sementi þannig að markaðshlutdeild Sementsverksmiðjunnar dróst saman á þessum tíma úr 60% niður í 52% þó svo að selt magn hennar ykist úr rúmlega 100 þúsund tonnum í rúmlega 153 þúsund tonn. Markaðshlutdeild Sementsverksmiðjunnar á móti innfluttu sementi var óbreytt í 52% á árunum 2006–2008. Tölurnar fyrstu sjö mánuði ársins 2009, og þetta er allt samkvæmt upplýsingum frá þeim, benda til þess að hinn mikli samdráttur í sementssölu sem þá varð bitni harðar á innflutningi en á innlendu framleiðslunni. Markaðshlutdeild innlenda sementsins virðist hafa aukist í 63% á fyrri hluta þessa árs. Það birtist einnig í því að innflytjandi danska sementsins hefur fækkað starfsfólki um rúmlega þriðjung á Suðurnesjum. Niðurstaða þessarar skoðunar leiðir í ljós að meginvandi bæði Sementsverksmiðjunnar og innflytjenda sements er hinn almenni samdráttur í byggingariðnaði. Tölur um markaðshlutdeild gefa ekki tilefni til að álykta að hlutur innlendrar framleiðslu sé lakari eftir en áður.

Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til að tryggja rekstrargrundvöll verksmiðjunnar, þ.e. Sementsverksmiðjunnar. Eins og ég sagði áður er, þar sem um er að ræða einkafyrirtæki í innlendri og erlendri eigu á samkeppnismarkaði, ekki ástæða að mínu mati til sértækra aðgerða gagnvart þessu eina fyrirtæki. Aðgerðir stjórnvalda í þágu atvinnulífsins hafa verið almennar og má þar nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem var samþykkt á vorþingi. Þar var endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað hækkuð í 100% sem hefur jákvæð áhrif á störf í byggingariðnaði. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti nær einnig til sumarbústaða og byggingar sveitarfélaganna. Þá má líka nefna að í öðru lagi hafa reglur um lán Íbúðalánasjóðs til viðhalds félagslegra íbúða verið rýmkaðar. Allt er þetta gert til að skapa störf í byggingariðnaði og auka um leið eftirspurn eftir byggingarefnum á borð við sement. Það mikilvægasta af öllu er almenn styrking á rekstrargrundvelli atvinnulífsins, m.a. með stuðningi við þær framkvæmdir sem raktar eru í minnisblaði með stöðugleikasáttmálanum en þar er þungamiðja verkefnis sem tengist byggingariðnaði óbeint. Það má nefna t.d. að hið opinbera hefur ákveðið að halda áfram framkvæmdum t.d. við tónlistarhúsið ásamt fleiri opinberum framkvæmdum. Hæstv. samgönguráðherra hefur lýst því að efst á hans forgangslista séu Vaðlaheiðargöng sem eru stærðarinnar framkvæmd á þessu sviði. Lífeyrissjóðirnir eru langt komnir með að vinna fýsileikakönnun á því eða taka ákvörðun um hvort farið verði í byggingu nýs landspítala. Þetta eru allt saman gríðarlega mikilvæg verkefni á meðan hinn almenni byggingarmarkaður er mettur. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að halda áfram og reyna að hefja nýjar opinberar framkvæmdir ásamt því að reyna með breytingu á lögum og sömuleiðis reglum Íbúðalánasjóðs að ýta undir að farið sé í viðhald á húsnæði.