138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

málefni Sementsverksmiðjunnar.

30. mál
[15:21]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og umræðu um Sementsverksmiðjuna. Það er auðvitað erfitt að ræða um fyrirtæki sem var í ríkiseigu og er eina sinnar tegundar á íslenskum markaði sem því miður var svo afhent einkaaðilum til rekstrar og gerir allar aðgerðir í sambandi við þessa verksmiðju erfiðari.

Það sem þarf að skýra og fylgjast betur með er hvort dönsku framleiðendurnir á sementi niðurbjóða markaðinn eða koma með undirboð inn á markaðinn. Það er ótrúlegt að fylgjast með því að þeir skuli geta haldið sig í samkeppninni þrátt fyrir tvöfalt gengi. Ég hef væntingar um að Samkeppniseftirlitið taki þetta mál upp og skoði hvort um óeðlilega viðskiptahætti sé að ræða, eins og sumir hafa bent á og margt bendir til.

Því miður fórum við í þvílíka framleiðsluaukningu á nokkrum árum að við notuðum 350 þúsund tonn af sementi og það er náttúrlega augljóst (Forseti hringir.) að íslenski markaðurinn eða verksmiðjan annaði því ekki. Síðan kemur tómarúm á eftir þessari miklu þenslu (Forseti hringir.) og samdráttur sem bitnar illilega á verksmiðjunni, sem er mikilvægt fyrirtæki í heimabyggð og við þurfum að gera allt til að halda (Forseti hringir.) á Skaganum.