138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

málefni Sementsverksmiðjunnar.

30. mál
[15:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þessa umræðu upp í dag. Staða Sementsverksmiðjunnar hefur verið til umræðu og farið hefur verið inn á þegar hún var einkavædd. Það er kapítuli út af fyrir sig sem hv. fyrirspyrjandi hefði kannski átt að ræða aðeins frekar. Því er ekki að neita að það er mikilvægt núna að taka stöðu með sementsframleiðslunni, með íslenskri framleiðslu, leita allra leiða. Er verið að beita undirboðum á markaði? Við þurfum að halda í það fólk og þá verkþekkingu sem þarna er, hvort sem verksmiðjan er í eigu hins opinbera eða ekki. Það hefði verið heppilegt að hún hefði verið áfram í eigu hins opinbera, ég neita því ekki, en iðnaðarráðherra á minn stuðning allan í þessu máli og ég treysti því að hún beiti öllum þeim mögulegu aðgerðum sem hún getur til að liðka fyrir íslenskri sementsframleiðslu.