138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um samgöngumiðstöð í Reykjavík. Þeir sem hafa notað innanlandsflugið þekkja aðstöðuna í Vatnsmýrinni. Hún er vægast sagt til skammar og ekki forsvaranleg gagnvart þeim sem nýta þá mikilvægu þjónustu sem þar er innt af hendi. Þeir sem koma þar þegar umferð er mikil þurfa að leggja bílum sínum úti í mýri og vaða hana til þess að komast inn í flugstöðina og oft er örtröðin slík þar innan dyra að það er augljóst að það húsnæði sem þar er fyrir hendi er ekki hannað fyrir slíkt álag.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvað líði því að reisa nýja samgöngumiðstöð í Reykjavík.

Þann 8. apríl sl. rituðu hæstv. ráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, undir minnisblað um nýja samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Ég þarf ekki að ítreka hér hvert mikilvægi flugvallarins er fyrir atvinnulíf í Reykjavík og fyrir landsbyggðina alla. Við verðum að hafa í huga að Reykjavík er höfuðborg landsins og greiðar samgöngur þurfa að vera til og frá henni, enda hafa forsvarsmenn sveitarfélaga og landshlutasamtaka á landsbyggðinni ítrekað ályktað um að byggja upp öfluga samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni. Menn hafa velkst í vafa um það hvar einstakir stjórnmálaflokkar standa í þeim efnum. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir uppbyggingu á þessu landsvæði í gegnum tíðina og mér er til efs að það standist að byggja viðamikla uppfyllingu eins og sakir standa í efnahagsmálum þjóðarinnar. Því tel ég einsýnt að við eigum að byggja upp samgöngumiðstöðina þar.

Ég hef staðið í þeirri trú og hef nokkra vissu fyrir því að á meðal framsóknarmanna sé ríkur vilji til að byggja upp samgöngumiðstöðina á þessu svæði með myndarlegum hætti, enda er það mikið hagsmunamál fyrir atvinnulíf í Reykjavík, við skulum ekki gleyma því, líka mikið hagsmunamál fyrir þá Reykvíkinga sem vilja heimsækja landsbyggðina og fyrir þá íbúa á landsbyggðinni sem vilja koma og þiggja m.a. nauðsynlega þjónustu sem er veitt í Reykjavík, og kannski ekki veitt á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Hér er því um brýnt hagsmunamál að ræða fyrir alla íbúa landsins og mikilvægt að hæstv. ráðherra og borgarstjórnin í Reykjavík taki höndum saman um að byggja upp viðunandi aðstöðu í Reykjavík vegna þess að eins og sakir standa með flugvöllinn í Vatnsmýrinni er sú aðstaða sem þar er fyrir hendi ekki sæmandi.