138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

ný samgöngumiðstöð í Reykjavík.

38. mál
[15:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég veit að ég þarf ekki að brýna hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum, ég veit að hann deilir með mér skoðunum. Ég vil samt sem áður hvetja hann til þess að höggva á þennan hnút. Það er orðið mjög brýnt að eyða þeirri óvissu sem hefur verið í kringum samgöngumiðstöðina. Það eru stöðugt í gangi alls konar draugasögur um að þessu verði slegið á frest og að þetta verði slegið af. Það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra hefur núna lýst því mjög ákveðið yfir að staðið verði við þetta og að spurning sé um fáeina mánuði hvenær þetta verði boðið út. Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing sem er ástæða til að taka undir, árétta og undirstrika.

Þó að þessi litla flugstöð sé vinaleg og góð og maður hafi svo sem átt þar margar ánægjulegar stundir, sumar að vísu fullar vonbrigða þegar ekki hefur verið flogið, sjá engu að síður allir að það er nánast kraftaverk þess fólks sem þarna hefur unnið sem gerir það að verkum að hægt hefur verið að afgreiða nærri hálfa milljón farþega í gegnum þessa flugstöð á ári hverju. Það er ekki eftir neinu að bíða, þetta er mjög mikilvægt, (Forseti hringir.) og sérstaklega auðvitað gott innlegg í þá kreppu sem ríkir í byggingariðnaðinum. (Forseti hringir.) Kannski gæti þetta orðið til þess að hægt yrði að selja svolítið sement frá Sementsverksmiðju ríkisins, Sementsverksmiðju Íslands.