138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

fjármögnun endurbóta á Suðurlandsvegi.

101. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin áðan og jafnframt þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Eins og fram hefur komið er gríðarlega mikilvægt að fólk fái fullvissu fyrir því að ráðist verði í þessa framkvæmd. Jafnframt er gríðarlega mikilvægt að fólki verði ekki haldið í óvissu um það ef til stendur að rukka þá sem leið eiga um þennan fjölfarna veg um veggjald og að ekki sé svarað með jafnloðnum hætti um þetta atriði og gert var hér áðan.

Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur hér um það hvort það komi til greina að hans mati að innheimta veggjald af vegfarendum um Suðurlandsveg miðað við þessi áform. Það kom fram í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að það væri leið sem vert væri að skoða en hún ætti þá að gilda jafnt um alla og leggjast á allar stofnbrautir. Ég spyr hvort til standi að leggja slíkt veggjald jafnframt á Reykjanesbrautina og Vesturlandsveg. Þetta er í umræðunni í samfélaginu og þetta kemur til með að lita alla okkar umræðu um þessar samgöngubætur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er einfaldlega hlutverk stjórnvalda að koma með skýr skilaboð. Er þetta planið eður ei?