138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Flóahrepps.

97. mál
[18:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir að hefja máls á þessu efni og ræða góða stjórnsýsluhætti við hæstv. umhverfisráðherra. Í ljósi þess að í máli hæstv. ráðherra kom fram að ráðuneytið virðist gera sér grein fyrir því að ekki er gildandi aðalskipulag í sveitarfélaginu, þrátt fyrir að öll sveitarfélög hafi átt að vera komin með aðalskipulag fyrir árið 2008 en í þessu tilviki seinkaði því, m.a. vegna sameiningar sveitarfélaga og ýmissa þátta annarra, þá hefði ég talið eðlilegt að ráðuneytið legði ýtrustu vinnu í að reyna að flýta málinu eins mikið og hægt var. Og hafi einungis staðið út af þessi kæra þá hefði væntanlega átt að vera búið að skoða aðalskipulagstillöguna að öllu öðru leyti.

Hvað er eðlilegur tími? Mig langar að velta upp þeirri spurningu við ráðherrann, hvað telur ráðherrann eðlilegan tíma í ráðuneytinu til að skoða aðalskipulagstillögur til staðfestingar (Forseti hringir.) eftir að Skipulagsstofnun, undirstofnun ráðuneytisins, hefur farið yfir málið?