138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Flóahrepps.

97. mál
[18:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýr og greinargóð svör við fyrirspurn minni og gott að við erum sammála um að ástæða sé til þess að fara yfir stjórnsýsluna í þessu máli, vegna þess að það er vissulega sérkennilegt og að mörgu leyti flókið. En inn í málið hefur m.a. blandast sú sorglega umræða að ýmsir pólitíkusar, ekki hæstv. umhverfisráðherra, ég vil ekki leggja henni það í munn, heldur hafa ýmsir aðrir pólitíkusar dregið í efa heiðarleika sveitarstjórnarmanna og það þykir mér mjög miður, að ráðist sé að heiðri þeirra á þann hátt sem gert hefur verið. Það var m.a. gert í blaðagrein í Morgunblaðinu, sem fær sveitarstjórnarmennina til þess að íhuga hvort eitthvað meira búi þar að baki. Ef ég má vísa í Morgunblaðsgrein, hæstv. forseti, frá sveitarstjóra Flóahrepps, þá kemur þar þessi klásúla:

„Það er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvort þessi umræða um skipulagsmál sveitarfélaga við Þjórsá sé tilkomin vegna andstöðu við virkjanaframkvæmdir en þá er rétt að benda á það að sveitarstjórnir og sveitarfélög munu aldrei virkja í Þjórsá.

Það eru ráðherrar og þingmenn sem taka ákvörðun um það og séu þeir mótfallnir virkjanaframkvæmdum hafa þeir alla burði til að hafna þeim sem eigendur Landsvirkjunar og vatnsréttinda í Þjórsá.

Það eru því vinsamleg tilmæli til þingmanna að láta sveitarstjórnir um sín mál, leyfa þeim að ljúka sínum skipulagsmálum þannig að hægt sé að halda áfram uppbyggingu í sveitarfélögunum ...“

Mig langar að fá það aðeins skýrar fram hjá ráðherranum hversu langur tími hún telur eiga að líða áður en þetta fæst afgreitt vegna þess að menn eru orðnir virkilega óþolinmóðir í Flóahreppi. Eins langar mig að vita hvort hún taki ekki undir það með mér og harmi umræðu af þessu tagi um þetta mál, þ.e. varðandi heiður sveitarstjórnarmanna og duldar meiningar þeirra í umræddum skipulagsmálum.