138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Flóahrepps.

97. mál
[18:12]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Varðandi spurningu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um það hvaða tími er eðlilegur þá er þetta mál, eins og kom fram í mínu máli áðan, óvenjulegt að því leyti til að það voru tilteknir þættir sem voru kærðir til samgönguráðuneytisins. Þetta var því ekki hefðbundin framgangsmáti skipulagstillögu. Staðfesting aðalskipulags snýst náttúrlega um mjög mikilsverða skipulags- og umhverfishagsmuni sem krefjast mjög rækilegrar skoðunar, eins og áður sagði. Það er einfaldlega sá tími sem ráðuneytið þarf til þess að fara yfir fyrirliggjandi gögn, fara yfir fyrirliggjandi skipulag, en ég held að jafnaði sé ekki sérstaklega um það að ræða að það þurfi að finna að framgangi á tímalengd slíkra afgreiðslna hjá umhverfisráðuneytinu. En vegna þess að fyrirspyrjandi nefndi hér hvaða tími eða hvenær heimamenn gætu átt von á því að fá staðfestingu skipulagsins eða lokaúrskurð ráðherra þá er það innan fárra vikna. Ég verð bara að biðja um úthald gagnvart svo loðnu svari sem pólitíkus verður að láta sig hafa að láta sér um munn fara, kannski allt of oft. En þannig er það.

En vegna þess að fyrirspyrjandi velti líka upp þeirri spurningu hvort ég harmaði ekki þá umræðu sem hefði farið fram þá er það sannarlega alltaf erfitt fyrir sveitarstjórnarmenn eins og alla aðra kjörna fulltrúa að sitja undir dylgjum en samt sem áður má líka benda á þá staðreynd, sem hefur sannarlega flækt málið verulega að umboðsmanni Alþingis þótti ástæða til þess að taka málið upp og það hefur verið erfitt fyrir heimamenn að sitja undir þeirri umræðu, ég átta mig algjörlega á því, en jafnframt er umhugsunarefni að umboðsmaður Alþingis skuli hafa talið þörf á því að taka málið upp í ljósi réttmæti tillögunnar, þ.e. hvort allir ferlar (Forseti hringir.) hefðu verið þar með eðlilegum hætti.