138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

98. mál
[18:18]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir fyrirspurnina. Eins og gefur að skilja eiga ýmis af þeim svörum sem komu fram í fyrri umræðu líka við um aðalskipulag Flóahrepps. En hér er um að ræða skipulagstillögu sem snýst um verulega breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem barst ráðuneytinu í nóvember 2008. Með tillögunni barst einnig umsögn Skipulagsstofnunar þar sem vakin var athygli á tilteknum málsmeðferðarágalla, vegna þess að ekki hafði verið haldin fullnægjandi forkynning skipulagstillögunnar, skv. 1. málslið 1. mgr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga, 73/1997. Úr þeim formbresti var bætt af hálfu sveitarstjórnar í júní sl. eftir ábendingu ráðuneytisins þar um. Von er á því að tillagan verði endanlega afgreidd af hálfu ráðuneytisins innan skamms og ég á von á því að þessi tvö skipulagsmál verði afgreidd frá ráðuneytinu á sama eða svipuðum tíma.

Eins og áður hefur komið fram gildir ekki sérstakur tímafrestur eða tímamörk um þessi mál. Við leitumst hins vegar við að afgreiða skipulagstillögur eins fljótt og við verður komið og í samræmi við almennar kröfur um málefnalega stjórnsýslu. En þarna er um það að ræða að umgetin skipulagstillaga var afar mikilvæg og varðaði margþætta verndarhagsmuni og málið hefur allt verið til mjög rækilegrar skoðunar í ráðuneytinu. Má til að mynda nefna að sveitarstjórn var veitt færi á því í kjölfar úrskurðar samgönguráðuneytisins, sem barst ráðuneytinu með bréfi 3. september, varðandi lögmæti samkomulags Landsvirkjunar og Flóahrepps vegna þessa skipulags — ekki var talið útilokað að það gæti haft einhverja þýðingu fyrir ákvörðun viðvíkjandi staðfestingu aðalskipulagsins að koma athugasemdum og afstöðu sinni varðandi þetta mál þar að. En þær athugasemdir bárust ráðuneytinu nú rétt fyrir miðjan október.

Að mati mínu og mati ráðuneytisins þykir ekki ljóst að stjórnsýsla þessi sé í nokkurri andstöðu við góða stjórnsýsluhætti þó að málið hafi vissulega verið mjög tímafrekt og fyrirhafnarmikið í meðförum af þeim ástæðum sem ég hef greint frá hér á undan. Varðandi fund með heimamönnum þá er það því miður á allt of löngum viðtalalista umhverfisráðherra, en ég vænti þess að það geti gerst fyrr en síðar. Ég hef enga ástæðu til annars en vilja hitta það góða fólk og niðurstaðan mun væntanlega liggja fyrir innan mjög fárra vikna.