138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

staðfesting aðalskipulags Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

98. mál
[18:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna varðandi þessa fyrirspurn um aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Ég vil aðeins taka undir með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni sem hér talaði á undan, það er vissulega áhyggjuefni að það er að verða ár frá því að sveitarfélagið sendi þetta fyrst inn í ráðuneytið. Ég vil skora á hæstv. umhverfisráðherra að leggja sig alla fram um að klára þetta áður en ársafmælið gengur í garð, svo að ekki þurfi að halda sérstaklega upp á það afmæli.

Að öðru leyti tel ég rétt að við veltum því einfaldlega upp í ljósi þessa máls hvort það sé ekki eitthvað sem við þurfum að endurskoða. Ef það er rétt og eðlilegt að mál geti dregist þetta lengi þrátt fyrir ítarlega meðferð í sveitarfélaginu sem sannarlega fer með skipulagsvaldið tel ég að einhver brotalöm sé á löggjöfinni og það þurfi þá að endurskoða hana með tilliti til þess tímaramma sem ráðuneytið hefur. Vissulega eru sum mál viðamikil og krefjast mikillar yfirlegu, en í þessu tilviki, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á, hefur málið fengið ítarlega umfjöllun. Skipulagsvaldið er réttilega í höndum sveitarfélaganna og um það mun sú sem hér stendur standa vörð og mun ekki taka þátt í því að lögfesta reglur eða löggjöf um landsskipulag. Sveitarfélögin fara með þetta vald og þetta er ekki bjóðandi þeim sem eru búnir að eyða miklum peningum og mikilli vinnu í þetta allt, og ég tala nú ekki um íbúana sem búast við því að aðalskipulagið gangi í gegn og hafa af því hagsmuni, bæði fjárhagslega og samfélagslega, að vita hver uppbyggingin í sveitarfélaginu verður og hvernig henni verður háttað.