138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

eftirlit og björgunarstörf á Norður-Atlantshafi.

52. mál
[18:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um mikilvægi þessa samstarfs. Við höfum átt um langt árabil mjög uppbyggilegt samstarf við danska sjóherinn og einnig núna nýlega er aukið samstarf við norsku strandgæsluna. Ég tel þetta vera óhemju mikilvægt samstarf og við þurfum að hlúa að Landhelgisgæslunni svo hún geti haldið þessu samstarfi áfram. Það er búið að koma hér inn á skemmtiferðaskipin og olíuskipin og ég vil líka bæta við að við höfum reynslu af því að t.d. danski sjóherinn hefur aðstoðað okkur í fíkniefnamálum, elti hér skútu með fíkniefni sem var svo tekin. Þetta var geysilega mikilvægt framlag.

Varðandi skemmtiferðaskipin þá er það þannig að á síðasta ári komu 60 þúsund manns á skemmtiferðaskipum til Íslands og fleiri komu í ár. Þetta er geysilegur fjöldi og ef eitt svona skip sekkur þarf að bjarga því sem bjargað verður. Og samstarfið verður að vera öflugt þannig að við getum gert eins vel og hægt er í slíkum aðstæðum. Ég vil undirstrika það og tek heils hugar undir orð fyrirspyrjanda að þetta samstarf þarf að vera í góðu lagi.