138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

eftirlit og björgunarstörf á Norður-Atlantshafi.

52. mál
[18:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra kærlega fyrir skilmerkileg svör. Sá stutti tími sem við höfum hér í pontu gerir það að verkum að umræðan verður dálítið knöpp en það er ekki við það að sakast, við verðum að nýta það sem við höfum.

Ég velti því fyrir mér í framhaldi af svörum hæstv. ráðherra þar sem greinilega hefur verið gert verulegt átak í því að ná skipulegum samningum eða samstarfi við okkar ágætu nágrannaþjóðir, hvort sú hugmynd að reyna að koma á sameiginlegri stofnun sem hefði björgunarsveit eða eitthvað slíkt sem hefði þá aðsetur hér á landi því að það væri væntanlega besti staðurinn, hvort það er ekki eitthvað sem við gætum átt frumkvæði að við þessa ágætu nágranna.

Ég vil einnig þakka öllum þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og lögðu gott til. Og þær þingsályktanir sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi hér eru einmitt mikilvægar og hafa sprottið upp úr Vestnorræna ráðinu og verið samþykktar á þinginu, og maður veltir þá kannski fyrir sér hvað síðan hefur verið unnið með þær áfram í ráðuneytinu. Það var kannski að nokkru leyti komið svar varðandi Landhelgisgæsluna og danska herinn og norsku strandgæsluna en varðandi kannski hina ályktunina um frjálsu félagasamtökin til að efla og styrkja samstarf slysavarnafélaga og björgunarsveita í löndunum þremur. Nú þekkjum við að það er mjög sterkt og öflugt innra starf sem við höfum byggt upp hér á landi en við vitum líka að það er ekki með sama hætti, sérstaklega ekki í Grænlandi og Færeyjum. Við gætum svo sannarlega lagt þeim lið og þakkað góðan hug og stuðning á öðrum vettvangi með þeim hætti.