138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

úrbætur í fangelsismálum.

86. mál
[18:47]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hv. þingmaður er svo fróð um þessi mál að ekki er víst að ég hafi miklu við að bæta. En ég ætla samt að koma með upplýsingar um hvað úrbótum líður.

Í fyrsta lagi vinnur ráðuneytið nú að frumvarpi til breytinga á lögum um fullnustu refsinga sem verður kynnt bráðlega. Frumvarpinu er ætlað að taka að hluta til á þeim vanda sem fangelsin eiga við að etja með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með því að rýmka reglur um reynslulausn, í öðru lagi með því að rýmka heimildir til að afplána dóma með samfélagsþjónustu og í þriðja lagi með því að innleiða reglur um að unnt sé að ljúka hluta afplánunar með ökklabandi eða öðru rafrænu eftirliti. Rafrænt eftirlit eða rafrænt ökklaband er eftirlit með því að fangi haldi sig á ákveðnu svæði, t.d. heima eða á vinnustað, eitthvað svoleiðis, og getur verið hluti af því að ljúka afplánun. Öll þessi atriði eru þess eðlis að ég tel að ræða verði þau vel, vegna þess að það að rýmka heimildir til að afplána dóma með samfélagsþjónustu getur kallað á ákveðna grundvallarumræðu um þessi mál sem ég tel reyndar mjög mikilvægt að fari fram.

Ljóst er þó að ekki er allur vandi leystur með þessum lagabreytingum ef af verður. Ráðuneytið og Fangelsismálastofnun hafa í samvinnu við Ríkiskaup haft til skoðunar tilboð sem bárust eftir auglýsingu ráðuneytisins um opnun fangelsis á Suðurlandi, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur komið inn á. Ekki er komin niðurstaða í það mál en hennar er vonandi að vænta á næstunni. Í því sambandi vil ég nefna að óhentugt húsnæði er dýrt, það eykur mjög á rekstrarkostnað, þannig að hér verður að vanda til verka.

Einnig er unnið að úttekt á hagkvæmni þess að byggja öryggisfangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Frumathugun bendir til þess að með niðurlagningu fangelsa á Skólavörðustíg og Kópavogsbraut, samhliða byggingu á nýju fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, náist veruleg rekstrarhagkvæmni ef miðað er við núverandi ástand mála.

Þótt hv. fyrirspyrjandi hafi komið hér með ákveðnar tölulegar upplýsingar sem ég ætlaði að koma með, ætla ég að fara aðeins yfir þær. Það eru 240 manns á biðlista eftir afplánun, 88 fangar afplána á Litla-Hrauni og er þar nýtingin í rauninni yfir 100% sem og í öllum fangelsum landsins, þar sem plássið er notað svo sem frekast er unnt, t.d. með því að tveir eru saman í klefa. Alls eru 133 afplánunarpláss í landinu og ef við horfum á þennan langa biðlista er ljóst að verulegur skortur er á plássum, en 240 bíða eftir að afplána. Auk þess er mjög sláandi að 1.600 eru á biðlista eftir að afplána vararefsingu, en það eru einstaklingar sem ekki greiða sektir sem þeim er gerðar. Þeim fjölgar í raun ört, vegna þess að hvatningu vantar til að greiða sektina vegna plássleysis í fangelsum. Ef við reynum að hugsa lausnamiðað í þessu sambandi, þá væri unnt að hugsa sér að menn verði boðaðir til afplánunar í fangaklefum á lögreglustöðvum um land allt, en það er dýrt vegna þess að ráða verður til gæslu fangaverði eða annað starfsfólk við lögreglustöðvarnar. Þótt lögreglan gæti kannski sinnt því að einhverjum hluta, þá getur hún það ekki að öllu leyti vegna þess að þetta eru í rauninni mjög óhentug pláss til afplánunar. En þetta er ákveðin lausn sem ég ætla að viðra hér sem maður gæti hugsað sér til þess að taka á þessum ofboðslega biðlista eftir afplánun vararefsingar.

Að öllu þessu sögðu vil ég leggja áherslu á að hvað sem líður þeirri bráðabirgðalausn sem fælist í því að taka húsnæði á leigu vegna þess bráðaástands sem nú ríkir, þá leysir það ekki þann vanda sem við er að etja og ekki verður hjá því vikist að huga að fangelsisbyggingu, að huga að varanlegri lausn sem felst í því að byggja nýtt öryggisfangelsi hér á Íslandi.