138. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2009.

gerð samninga um flutning dæmdra manna.

95. mál
[18:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Að meðaltali er fimmti hver fangi á Íslandi erlendur og þetta hlutfall er nú aðeins hærra á Litla-Hrauni. Samkvæmt upplýsingum tala flestir þeirra aðeins eitt tungumál og það er þeirra eigið. Samskiptin eru því erfið og túlkaþjónustan dýr og við tjáskipti reiðir fangelsið sig á heftið Mál í myndum, sem gefið var út af Landspítalanum. Með því að benda á myndir geta fangarnir að einhverju leyti gert sig skiljanlega án túlks. Þetta er auðvitað frekar flókin staða sem er uppi þegar málum er svona háttað og mér skilst að í Hegningarhúsinu sé ástandið jafnvel enn verra. Það er fyrsti viðkomustaður erlendra afbrotamanna sem koma víst talsvert margir á fölsuðum skilríkjum og menn vita ósköp lítið um þá og þeir tala ekki önnur tungumál. Þetta er auðvitað mjög óheppileg staða og maður hlýtur að spyrja sig: Getum við gert eitthvað í þessu? Það er ekki gott fyrir fangana sjálfa að geta ekki tjáð sig á staðnum og til er Evrópuráðssamningur um flutning dæmdra manna. Á grundvelli þess samnings, sem byggir á samvinnu, á að stuðla að réttlæti og félagslegri endurhæfingu dæmdra manna og menn telja að árangur náist með því að afbrotamönnum, sem eru sviptir frelsi, sé veittur kostur á að afplána refsingu innan síns eigin samfélags.

Á sínum tíma gerði þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, samkomulag við dómsmálaráðherra Litháens á grundvelli þessa samnings um að taka við litháískum föngum. Tveir fangar voru nefndir í því sambandi. Virðulegur forseti, ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort við höfum gert svona samninga við önnur ríki, þ.e. samninga á grundvelli samnings Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna til heimalands síns? Mig grunar að við höfum gert það í tilfelli Litháens, ég er samt ekki algjörlega viss um það. Stendur til að gera slíka samninga á næstunni? Í fangelsunum okkar eru hópar manna frá t.d. Eystrasaltsríkjunum og þá kannski helst frá Litháen og svo frá Póllandi Það gæti verið eðlilegt að kanna með samninga við alla vega þessi tvö ríki, því þetta er nú kannski stærsti hlutinn af okkar erlendu föngum. Þá mundum við væntanlega taka okkar eigin fanga hingað inn til okkar á sama grundvelli. Mig langar að spyrja að þessu, virðulegur forseti, og svo líka varðandi þessa samninga ef þeir eru til eða verða gerðir: Er föngunum í sjálfsvald sett að biðja um flutning og líka þá að neita flutningi?