138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

uppgjör Landsbankans vegna Icesave.

[10:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á fundi hv. fjárlaganefndar í gær kom fram hjá skilanefnd Landsbankans að forgangskrafa innlánstryggingarsjóðs og annarra, Breta og Hollendinga, vegna Icesave-innlánanna hefði verið fryst í krónum talið þann 22. apríl sl. samkvæmt lögum frá Alþingi. Vextir og gengishækkanir yrðu eftirstöðvar kröfu, þ.e. aldrei greiddar. Vegna þess að eignir gamla Landsbankans eru að mestu leyti í erlendum myntum og gengi þeirra mynta hefur hækkað um rúm 8% frá 22. apríl geta eignir hans nú staðið undir 90% af Icesave-kröfunum sem eru fastar að krónutölu.

Á hinn bóginn er þessi forgangskrafa, föst sem krónutala, megineign innlánstryggingarsjóðs til að mæta þeim skuldabréfum sem hæstv. ríkisstjórn hefur samþykkt að veita ríkisábyrgð á samkvæmt frumvarpi sem nú er til umræðu í hv. fjárlaganefnd. Þau skuldabréf eru hins vegar gengistryggð og bera mjög háa vexti, ég mundi segja ofurvexti, Svavars-vexti, 5,55% jafnvel um ókomna framtíð, um alla framtíð. Þessi skuldabréf hafa hækkað um 80 milljarða kr. á hálfu ári. Þar af eru 20 milljarðar vegna vaxta á móti eign sem er föst í krónutölu og ber hvorki vexti né gengishagnað og rýrnar stöðugt vegna verðbólgu og gengisfalls. Hefur hæstv. forsætisráðherra látið meta hversu stórt þetta bil getur orðið á næstu sjö árum miðað við ýmsar forsendur og hvernig ríkissjóður getur aflað sér gjaldeyris til að greiða þessar fjárhæðir og vexti af þeim eftir 2016?