138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

persónukjör.

[10:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðunni um störf þingsins í gær komu fram merkilegar upplýsingar úr allsherjarnefnd, nefnilega að nefndin hefði fengið umsagnir vegna frumvarps um persónukjör. Ein umsögnin barst frá stjórn Vinstri grænna, í hverri sitja nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn. Þeir voru þeirrar skoðunar að það væri ekki rétt af Alþingi að afgreiða frumvarpið.

Við höfum svo sem séð ýmislegt á þeim tíma sem þessi ríkisstjórn hefur starfað varðandi sundurlyndi og ósamstöðu í einstökum málum. Það er hægt að tína margt til, Helguvíkursamningana, Icesave-frumvarpið, jafnvel Evrópusambandsmálið og fleiri, en á þessum tímapunkti þegar svona stutt er til sveitarstjórnarkosninga er með miklum ólíkindum ef ríkisstjórnin leggur hér fram frumvarp sem engin samstaða er um í ríkisstjórninni. Frumvarp sem snýst um að breyta í grundvallaratriðum því hvernig staðið er að framboði og uppstillingu lista fyrir kosningar.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Var henni kunnugt um að ráðherrar í ríkisstjórn væru mótfallnir þessu máli? Kom fram andstaða við málið í ríkisstjórn? Er þetta mál bara lagt fram á þinginu til skoðunar til þess að drepa tímann, eins og við höfum ekki við neitt annað að fást hér? Væri ekki nær að allsherjarnefnd skoðaði mál sem t.d. snúa að sýslumannsembættum og nýlegum hugmyndum um breytingar á lögregluembættunum víðs vegar um landið en mál sem ekki er einu sinni samstaða um í ríkisstjórninni sjálfri?

Getum við verið sammála um að taka þetta mál af dagskrá og hætta vinnu við það eða hefur forsætisráðherra lagt málið fram til þess að knýja fram niðurstöðu í því, jafnvel þannig að hún fáist ekki fyrr en eftir áramót þegar nokkrar vikur eru í kosningar og allt sveitarstjórnarstigið í landinu er í fullkomnu uppnámi á meðan?