138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

persónukjör.

[10:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig með sum mál og ég skal nefna hér nokkur sem dæmi, stjórnarskrárbreytingar, umsókn um aðild að Evrópusambandinu og breytingar á kosningafyrirkomulagi, að þeim er ekki hægt að flýta í gegnum þingið. Slík mál er ekki hægt að koma fram með á síðustu stundu, jafnvel þótt hæstv. ráðherrar hafi haft þau til umfjöllunar innan sinna raða í langan tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál sé vel hægt að skoða í rólegheitum og vinna að samstöðu um það á milli flokkanna. Við þær kringumstæður sem eru uppi núna er algjörlega fráleitt að reyna að leiða fram einhverja niðurstöðu, við erum einfaldlega brunnin inni með tíma. Það er engin skynsemi í því að taka tíma þingsins í að gera breytingar sem skipta svona miklu máli fyrir jafnmarga eins og á við í þessu máli. Mín skoðun er því afskaplega einföld: Við erum tilbúin til að ræða þessi mál en við erum löngu brunnin inni með tíma fyrir næstu kosningar.